Fótbolti

ESPN fjallar um mögulega framtíð Arons í Póllandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Jóhannsson komst í gang með Hammarby seinni hluta tímabilsins og var með tólf mörk í síðustu fimmtán leikjunum.
Aron Jóhannsson komst í gang með Hammarby seinni hluta tímabilsins og var með tólf mörk í síðustu fimmtán leikjunum. Getty/Nils Petter Nilsson

Bandaríkjamenn eru ekki hættir að fylgjast með framherjanum Aroni Jóhannssyni sem er að leita sér að nýju félagi.

Aron Jóhannsson er í samningaviðræðum við pólska knattspyrnufélagið Lech Poznan og þær eru langt komnar samkvæmt heimildum ESPN.

Bandaríski íþróttamiðillinn segir að samningaviðræðurnar séu komnar á næsta stig en Aron hefur verið að leita sér að nýju liði eftir að samningur hans við sænska liðið Hammarby rann út í árslok.

ESPN sýnir Aroni áhuga enda bandarískur landsliðsmaður þó að það sé langt um liðið síðan að hann komst síðast í landsliðið.

Aron talaði um það í nóvember síðastliðnum að hann væri að reyna að finna sér lið í bandarísku eða þýsku deildinni en ekkert hefur orðið að því.

Ferill Arons að undanförnu hefur verið að taka við sér eftir meiðslahrjáð ár á undan en hann skaust upp á stjörnuhimininn eftir árin hjá AGF og AZ Alkmaar sem skiluðu honum í bandaríska landsliðið og inn á HM í Brasilíu 2014.

Aron skoraði 12 mörk í 22 leikjum í sænsku deildinni á síðasta ári en það tók hann tíma að hitna. Aron skoraði ekki sitt fyrsta mark fyrr en í fjórtándu umferð og var síðan með tólf mörk í síðustu fimmtán leikjum sínum.

Nú lítur út fyrir að framtíð hans sem knattspyrnumanns sé í Póllandi. Lech Poznan er eins og er í tíunda sætinu í pólsku deildinni, fimmtán stigum á eftir toppliði Pogon Szczecin.

Lech Poznan sló Aron og félaga í Hammarby út úr Evrópudeildinni síðasta haust en tókst ekki að komast upp úr riðlakeppninni og því eru engir Evrópuleikir framundan hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×