Innlent

Hefur ákveðið að segja fólki ekki „að fokka sér“ í opinberri umræðu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna.
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna. vísir/Vilhelm

„Ég hef ákveðið í ljósi alls þess sem gerst hefur, að setja mér ákveðnar reglur,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri Grænna, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

Þar vísaði hann í skotárásir á bíl borgarstjóra og skrifstofur stjórnmálaflokka og vísaði í sambærileg mál í nágrannalöndum.

„Ég hef ákveðið að haga orðum mínum ekki þannig að ég saki samþingfólk mitt um ofbeldi, sem ákveður eina leið umfram aðra við afgreiðslu þingmála, saka ekki um landráð; þau sem hafa aðrar skoðanir en ég hef, kalla þau ekki illum nöfnum eða saka um mannvonsku, segja fólki ekki að fokka sér í opinberri umræðu, reyna ekki að nota niðrandi og smættandi merkimiða,“ sagði Kolbeinn.

Kolbeinn sagðist í vikunni hafa setið fund þingmannanefndar Eystrasaltsráðsins þar sem svipuð mál í Svíðþjóð voru til umfjöllunar. 

„Þar er staðan sú að einn af hverjum þremur stjórnmálamönnum hefur orðið fyrir áreiti, hótunum, ofbeldi og ákveðið að tala ekki um einstaka mál af ótta við þetta allt saman. Þar er staðan sú að fjórir af hverjum tíu blaðamönnum hafa forðast að fjalla um ákveðin málefni vegna hótana. Þetta er grafalvarleg staða sem við búum við alls staðar í heiminum.“

Hann hvatti þingmenn og aðra sem koma að stjórnmálum til árvekni. „Við þurfum að taka saman höndum um að gera allt sem í okkar valdi stendur til að sporna gegn þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×