Erlent

Fyrsti sam­kyn­hneigði ráð­herra Banda­ríkjanna sem þingið staðfestir

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Tilnefning Buttigieg í embætti samgönguráðherra var staðfest í dag.
Tilnefning Buttigieg í embætti samgönguráðherra var staðfest í dag. Stefani Reynolds - Pool/Getty

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í dag tilnefningu Pete Buttigieg í embætti samgönguráðherra í ríkisstjórn Joes Biden.

Tilnefningin flaug í gegnum þingið með 86 atkvæðum gegn 13. Buttigieg varð þar með fyrsti opinberlega samkynhneigði maðurinn til að vera staðfestur af þinginu í ráðherraembætti í ríkisstjórn Bandaríkjanna.

Buttigieg er þó ekki fyrsti samkynhneigði ráðherra í sögu Bandaríkjanna, en í stjórnartíð Donalds Trump var Richard Grenell, sem er samkynhneigður, starfandi yfirmaður leyniþjónustunnar frá febrúar til maí 2020. Yfirmenn leyniþjónustumála í Bandaríkjunum eiga sæti í ríkisstjórn. Grenell var þó aldrei samþykktur af þinginu.

Þegar tilkynnt var um að Biden hefði tilnefnt Buttigieg í embættið sagðist Buttigieg meðvitaður um að „augu sögunnar væru á tilnefningunni.“ Hann kvaðst minnast þess að hafa, þá 17 ára gamall, fylgst með þegar eitt af ráðherraefnum Bills Clinton, fyrrverandi forseta, var neitað um atkvæðagreiðslu í þinginu vegna þess að hann var samkynhneigður.

Eftir að skipun Buttigieg í embætti lá endanlega fyrir sendi hann frá sér tíst þar sem hann kvaðst auðmjúkur og heiðraður vegna staðfestingarinnar. Nú væri hann tilbúinn að taka til starfa.

Buttigieg er einn þeirra Demókrata sem laut í lægra haldi fyrir Joe Biden í forvaldi Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fram fóru í nóvember í fyrra. Buttigieg var áður borgarstjóri í South Bend í Indiana.

Buttigieg er 39 ára og er þar með yngstur ráðherra í ríkisstjórn Bidens. Samgönguráðuneytið fer með öll mál er varða samgöngur og innviði þeim tengdum, og er með um það bil 55 þúsund manns í vinnu.

Fréttin var uppfærð klukkan 22:03.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×