Erlent

Hafa hand­tekið yfir þúsund manns í fjöl­mennum mót­mælum í Rúss­landi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Óeirðalögregla heldur á handteknum mótmælanda í Moskvu.
Óeirðalögregla heldur á handteknum mótmælanda í Moskvu. AP Photo/Alexander Zemlianichenko

Lögregla í Rússlandi hefur handtekið yfir eitt þúsund manns í tengslum við fjöldamótmæli um allt landið. Mótmælendur kalla eftir því að stjórnarandstæðingnum Alexei Navalní verði sleppt úr haldi og að Vladimír Pútín forseti stigi til hliðar.

Í höfuðborginni Moskvu hefur lestarstöðvum verið lokað í því skyni að draga úr samgöngumöguleikum mótmælenda. Þá hefur samgönguleiðum í miðborginni verið lokað og um hundrað verið handtekin í borginni, samkvæmt Reuters fréttastofunni.

Á samfélagsmiðlum má finna gríðarlegt magn ljósmynda og myndskeiða frá mótmælunum. Af þeim má ráða að mótmælendur skipta þúsundum. Hér að neðan má til að mynda sjá stóran hóp mótmælenda saman kominn í Moskvu. „Pútín er þjófur,“ kyrjar hópurinn í kór.

Þá sýna myndbönd einnig nokkuð harkalegar aðfarir lögreglu, bæði í viðleitni sinni til að hafa stjórn á mótmælendahópum, sem og við handtökur á stökum mótmælendum. Myndband frá borginni Seljabinsk í Úralfjöllum sýnir tvo lögreglumenn krjúpa á liggjandi mótmælanda sem hrópar „Ég get ekki andað,“ á meðan fleiri lögreglumenn fylgjast með.

Þá sýnir mynd frá borginni Krasnojarsk í Síberíu hvernig óeirðalögregla hefur króað lítinn hóp mótmælenda af og umkringt hann.

Enn annað myndband sýnir þá lögreglumenn í Sankti Pétursborg handtaka fréttamann sem er skilmerkilega merktur með gulu vesti. Í myndbandinu sjást lögreglumenn einfaldlega halda á fréttamanninum á brott.

Skilaboðin þau að mótmælenda bíði afleiðingar

Samkvæmt fréttamanni Sky í Moskvu skipta mótmælendur þar þúsundum, en þeim hefur reynst erfitt að koma saman á einum stað.

„Lögreglan er búin að lýsa því yfir að um ólöglega samkomu sé að ræða og mótmælendur verði að fara. Svo velja þeir einfaldlega fólk úr mannfjöldanum fyrir það eitt að vera hér og taka það í burtu. Á síðustu þremur tímum hef ég séð tugi fólks handtekna, sumt fólkið var hvergi nálægt mótmælunum,“ segir Diana Magnay, fréttamaður Sky í Moskvu, í umfjöllun sinni um málið.

Hún segir þá að minnst sjö lestarstöðvum hafi verið lokað og að lögreglan hafi bókstaflega girt miðborg Moskvu af, til þess að draga úr áhrifum mótmælanna.

Síðustu helgi voru yfir fjögur þúsund mótmælendur handteknir víðs vegar um Rússland og segist Magnay gera ráð fyrri að handtökur þessara helgar verði fleiri. Svo virðist sem skilaboð yfirvalda séu að mótmæli séu með öllu óheimil og að mótmælendur muni þurfa að svara til saka fyrir þau.


Tengdar fréttir

Áfrýjun Navalnís hafnað og bandamenn ákærðir

Áfrýjunardómstóll í Moskvu hefur hafnað kröfu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní um að gæsluvarðhaldsúrskurður hans verði felldur niður. Þá hafa bandamenn Navalnís verið ákærðir vegna mótmæla sem haldin voru um síðustu helgi og til stendur að halda þá næstu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×