Erlent

Segist vera eig­andi hinnar um­deildu Svarta­hafs­hallar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Pútín og Rotenberg á orðuveitingarathöfn árið 2018.
Pútín og Rotenberg á orðuveitingarathöfn árið 2018. Mikhail Metzel\TASS via Getty

Rússneski auðjöfurinn Arkadí Rotenberg segist vera eigandi stærðarinnar hallar við strendur Svartahafs sem gagnrýnendur Vladimírs Pútín Rússlandsforseta hafa sagt þann síðarnefnda eiga.

Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem andstæðingar forsetans gerðu er Pútín eigandi hinnar gríðarstóru hallar. Sjálfur hefur Pútín neitað því. Stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalní, sem var handtekinn í Rússlandi á dögunum, er á meðal þeirra sem standa að baki rannsóknarinnar.

Rotenberg, sem er afar náinn Rússlandsforseta hefur nú stigið fram og sagst vera eigandi hallarinnar, sem hefur reynst afar umdeild eftir að heimildamynd um hana kom út. Samkvæmt henni kostaði höllin 1.370 milljónir dala, eða rúmlega 176 milljarða króna.

Mótmælendur andsnúnir rússnesku stjórnvöldum hafa gripið málið á lofti, en það hefur sett aukinn kraft í fjölmenn mótmæli gegn aðgerðum Pútíns og ríkisstjórnar hans gegn Navalní og öðrum stjórnarandstæðingum.


Tengdar fréttir

Áfrýjun Navalnís hafnað og bandamenn ákærðir

Áfrýjunardómstóll í Moskvu hefur hafnað kröfu rússneska stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní um að gæsluvarðhaldsúrskurður hans verði felldur niður. Þá hafa bandamenn Navalnís verið ákærðir vegna mótmæla sem haldin voru um síðustu helgi og til stendur að halda þá næstu.

Biden og Pútín ræddust við í síma: Ber ekki alveg saman um efnið

Joe Biden Bandaríkjaforseti hringdi í dag í Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Talsmönnum forsetanna ber ekki fullkomlega saman um hvaða mál voru til umræðu en Washington Post segir Biden hafa tjáð Pútín að Bandaríkin myndu verja sig gegn „óvinveittum aðgerðum“ af hálfu Rússlands.

Navalní segist ekki ætla að svipta sig lífi í fangelsi

Tugir þúsunda Rússa komu saman við mótmæli víðsvegar um Rússlands í gær. Þar af hittust einhverjir í allt að fimmtíu gráðu frosti. Rúmlega þrjú þúsund þeirra voru handteknir af lögreglu sem mætti mótmælendum víða af hörku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×