Körfubolti

„Þetta var sjón­varps­leikur gegn Kefla­vík og það er nóg“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ægir ræðir við Stúdíó 3 á Suðurlandsbrautinni í gær.
Ægir ræðir við Stúdíó 3 á Suðurlandsbrautinni í gær. vísir/skjáskot

Ægir Þór Steinarsson, leikmaður Stjörnunnar, segir leikinn gegn Keflavík í gærkvöldi hafi verið skrýtinn leik. Hann segir Stjörnuliðið ekki hafa fundið taktinn að undanförnu en það að gíra sig upp í sjónvarpsleik gegn Keflavík hafi verið nóg.

Ægir Þór var með þrefalda tvennu í leiknum en Stjarnan vann fjörutíu sigur í leiknum. Ægir ræddi við Domino’s Körfuboltakvöld í gær eftir stórsigurinn.

„Þetta var nokkuð skrýtinn leikur. Við byrjuðum sterkt og héldum dampi út leikinn. Fókusinn fyrir leikinn var að spila betri vörn en við höfum verið að gera það. Við byrjuðum sterkt og fylgdum því eftir,“ sagði Ægir í samtali við Suðurlandsbrautina í gær.

„Það sem við höfum verið að gera varnarlega hefur ekki verið að virka vel. Við höfum fengið smá tíma til að fara yfir þetta og stilla þetta og gera þetta eins og menn. Það gefst ekki tími inn á parketinu en við náðum aðeins að vinna í þessu og fylgja þessu eftir.“

Nýr Bandaríkjamaður kom inn í lið Stjörnunnar í gær og Ægir segir að það hafi ekki verið ástæðan fyrir því að menn hafi verið svona klárir í slaginn.

„Þetta var sjónvarpsleikur gegn Keflavík og það er nóg,“ sagði Ægir.

„Fyrir mér er er hann orðinn besti maður deildarinnar. Það er fáránlegt hvað hann er að spila vel,“ sagði Benedikt Guðmundsson, einn af spekingunum, en Benedikt þjálfaði Ægi á sínum yngri árum.

„Hann er að verða þrítugur á þessu ári en það er ekkert að hægjast á honum. Það er sami hraði og kraftur og það sem gerir hann hugsanlega að besta manni deildarinnar; þriggja stiga skotin hjá honum eru orðin „deadly“. Þú verður að dekka skotin hans. Hann er líka svo öflugur að finna sendingarnar. Mér finnst hann orðinn ofboðslega góður og ég elska að horfa á hann spila.“

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Ægir í viðtali

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir

Hjalti: Vorum ömurlegir í dag

Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, var eðlilega súr og svekktur eftir fjörutíu stiga tapið fyrir Stjörnunni í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×