Erlent

Björn elti mann á skíðum

Samúel Karl Ólason skrifar
Hvergi í Evrópu eru fleiri brúnbirnir en í Rúmeníu.
Hvergi í Evrópu eru fleiri brúnbirnir en í Rúmeníu. Vísir/Getty

Rúmenskur maður þurfti að taka á honum stóra sínum um síðustu helgi þegar björn elti hann á harðaspretti þegar maðurinn var að renna sér á skíðum. Aðrir skíðagestir öskruðu á manninn og sögðu honum að fara hraðar yfir.

Myndbönd af vettvangi sýna hvernig björninn hljóp á eftir manninum. Þetta gerðist í bænum Predeal í Transilvaníu.

Honum tókst þó á endanum að stinga björninn af, eftir að hann kastaði bakpoka sínum frá sér. Björninn staðnæmdist til að skoða bakpokann, samkvæmt frétt héraðsmiðilsins Ziarul de Iasi.

Björninn mun svo hafa verið rekinn á brott af mönnum á snjósleðum.

Þá stóð til að leita að birninum og flytja hann á öruggari stað, ef svo þyrfti.

Árið 2019 fjölgaði árásum brúnbjarna á menn töluvert og var talið að fjöldi þeirra væri orðinn of mikill. Þá var talið að um sex þúsund birnir væru í Rúmeníu og að þeir væru hvergi fleiri í Evrópu.

Hér má sjá sjónvarpsfrétt frá Rúmeníu og myndbönd af atvikinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×