Viðskipti innlent

Verstu janúar­út­sölur frá árinu 2002

Eiður Þór Árnason skrifar
Húsgögn, heimilisbúnaður og fleira lækkuðu um 3,4% í verði milli mánaða vegna áhrifa frá janúarútsölum.
Húsgögn, heimilisbúnaður og fleira lækkuðu um 3,4% í verði milli mánaða vegna áhrifa frá janúarútsölum. Vísir/vilhelm

Verð á fötum og skóm lækkaði um 6,5% í janúar samkvæmt tölum Hagstofunnar en síðustu fimm ár hefur liðurinn lækkað að meðaltali um 11% milli mánaða. Er lækkunin nú sú minnsta milli mánaða í janúar frá árinu 2002.

Fram kemur í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans að útsöluáhrifin síðasta sumar hafi sömuleiðis verið lítil. „Má líklegast rekja þetta til þess að útsölurnar hafi verið mun minni í sniðum vegna faraldursins sem hefur leitt til þess að Íslendingar kaupa meira af fötum og skóm hér á landi.“

Húsgögn, heimilisbúnaður og fleira lækkuðu um 3,4% í verði milli mánaða vegna áhrifa frá janúarútsölum. Síðustu þrjú ár hefur þessi liður að lækkað í kringum 5% milli mánaða að jafnaði „þannig að eins og með föt og skó er ljóst að útsölurnar í ár voru nokkuð slakar,“ eins og það er orðað í Hagsjánni.

Verðbólga ekki mælst hærri síðan 2013

Þar kemur jafnframt fram að vísitala neysluverðs lækkaði um 0,06% milli mánaða í janúar og mælist verðbólga nú 4,3% samanborið við 3,6% í desember. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,24% milli mánaða og mælist verðbólga án húsnæðis 4,7%. Var þetta mun minni lækkun milli mánaða en almennt var búist við en verðbólga hefur ekki mælst hærri síðan í ágúst 2013.

Auk áðurnefndra vöruliða voru breytingar á matvöru og drykkjarvöru, húsaleigu, húsnæðiskostnaði og bensíni helstu áhrifaþættir milli mánaða. Matur og drykkjarvörur hækkuðu meira en Hagfræðideildin átti von á. Hækkunin var nokkuð almenn og hækkuðu 68% undirliða.

Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,39% og vísitala markaðsverðs húsnæðis hækkaði um 0,87% en áhrif vaxtabreytinga voru 0,49 prósentustig til lækkunar.

Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu hækkaði aðallega vegna gjaldskrárhækkana um áramótin. Meðal annars hækkuðu sorphirðugjöld um 16,5% og hiti og rafmagn um 2,1%.

Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að verðbólga lækki og verði orðin 3,8% í apríl.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×