Innlent

Ríkisendurskoðun tekur út starfsemi Vegagerðarinnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bergþóra Þorkelsdóttir dýralæknir hefur verið forstjóri Vegagerðarinnar frá árinu 2018.
Bergþóra Þorkelsdóttir dýralæknir hefur verið forstjóri Vegagerðarinnar frá árinu 2018. Vísir/Sigurjón

Alþingi samþykkti í dag að fela ríkisendurskoðanda að gera úttekt á starfsemi Vegagerðarinnar. Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, fór fram á úttektina sem var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á fyrsta þingfundi eftir jólafrí í dag.

Ríkisendurskoðandi mun því ráðast í fjárhags- og stjórnsýsluúttekt á Vegagerðinni og skila skýrslu að þeirri vinnu lokinni. Í beiðninni sem samþykkt var í dag eru tilgreindir nokkrir þættir sem lagt er til að fjallað verði sérstaklega um í skýrslunni:

Í fyrsta lagi að metnir verði þættir sem snúa að stjórnsýslu og stjórnun Vegagerðarinnar.

Í öðru lagi þættir sem varða meðferð almannafjár og ráðstöfun til vegaframkvæmda.

Í þriðja lagi þættir sem varða öryggi vegfarenda á þjóðvegum landsins og eftirlit með vegaframkvæmdum.

Sara Elísa segist í tilkynningu frá þingflokki Pírata þakklát fyrir stuðning þingheims við skýrslubeiðnina. Úttekt sem þessi hafi líklega sjaldan verið mikilvægari.

„Í fyrra komu upp nokkur tilvik þar sem slys og tjón urðu í kjölfar vegaframkvæmda, á sama tíma og miklu fé hefur verið varið í samgönguframkvæmdir í tengslum við fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar í faraldrinum. Líklega hefur því aldrei verið jafn rík þörf og nú til að hafa eftirlit með starfsemi og skilvirkni Vegagerðarinnar,“ segir Sara Elísa.

Tilvikin sem Sara Elísa vísar til er meðal annars banaslys á Kjalarnesi þar sem hjón létust á vegakafla þar sem malbikun hafði verið ábótavant.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×