Körfubolti

Þrír sam­herjar Loga voru ekki fæddir er hann átti sinn fyrsta þrjá­tíu stiga leik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Þrír ekki fæddir og þrír innan við þriggja ára er Logi átt sinn fyrsta þrjátíu stiga leik.
Þrír ekki fæddir og þrír innan við þriggja ára er Logi átt sinn fyrsta þrjátíu stiga leik. skjáskot úr Domino's Körfuboltakvöldi

Logi Gunnarsson var magnaður er Domino's deild karla snéri aftur fyrir helgi. Njarðvíkingurinn skoraði 30 stig af 85 í liði Njarðvíkur sem tapaði fyrir Haukum í Ljónagryfjunni á fimmtudagskvöldið.

Það er orðið mjög langt síðan að Logi náði þessu afreki í fyrsta sinn á ferlinum í úrvalsdeildarleik. Logi skoraði í fyrsta sinn þrjátíu stig í leik í úrvalsdeildinni í lokaúrslitunum 2001.

Þá voru hins vegar þrír af samherjum hans í fyrrakvöld ekki fæddir og aðrir þrír voru innan við þriggja ára. Kjartan Atli Kjartansson ræddi um Loga við þá Teit Örlygsson og Jón Halldór Eðvaldsson.

„Þessi strákur æfir meira en flestur annar. Hann er einbeittur í því að halda sér í standi og ef að þessi gæi myndi labba upp í Sporthús og rífa sig úr að ofan, þá myndi hann líta betur út en 99,9% af þeim sem eru þar inni.,“ sagði Jón Halldór.

„Hann er með þvílíkan skrokk og hugsar svo vel um sig. Svo er hann bara svo góður strákur. Hann er svo góður gaur að hann á bara gott skilið.“

„Við vorum að tala um að menn væru í misjöfnu formi. Menn hafa fengið hundrað daga til þess að hvíla sig og hugsa um sig. Menn gætu verið í besta formi lífsins og sumir virðast vera það,“ sagði Teitur.

„Ég er með hann á Instagram og hann æfði á hverjum einasta degi og sýndi frá því!“ bætti Jón Halldór við.

Klippa: Domino's Körfuboltakvöld - Logi Gunnarsson

Domino's Körfuboltakvöld er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Domino's-deildir karla og kvenna í körfubolta og er á dagskrá öll föstudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×