Handbolti

Smit í HM-búbblunni hjá Dönum

Sindri Sverrisson skrifar
Emil Jakobsen hefur smitast af kórónuveirunni.
Emil Jakobsen hefur smitast af kórónuveirunni. Getty/Jan Christensen

Kórónuveirusmit hefur nú greinst í „búbblunni“ á HM í handbolta, í röðum heimsmeistara Danmerkur sem spila sinn fyrsta leik á mótinu í dag.

Emil Jakobsen greindist með smit og hefur nú verið settur í einangrun ásamt Morten Olsen, herbergisfélaga sínum. Jakobsen verður því ekki með í kvöld en mögulegt er að Olsen spili fari svo að sýni úr honum greinist neikvætt, samkvæmt heimasíðu danska handknattleikssambandsins.

Allir leikmenn og starfsfólk danska landsliðsins fara í smitpróf fyrir leikinn við Barein í dag. Hjá Barein er Halldór Jóhann Sigfússon aðalþjálfari.

„Við erum mjög leiðir yfir þessu en aftur á móti vorum við undirbúnir fyrir þessa stöðu og fylgjum okkar reglum sem og reglum alþjóða handknattleikssambandsins,“ sagði Morten Henriksen, íþróttastjóri danska handknattleikssambandsins.

Alþjóða handknattleikssambandið greindi frá því í gærkvöld að fjórir leikmenn Grænhöfðaeyja, tveir frá Slóveníu og einn frá Brasilíu hefðu greinst með veiruna við komuna til Egyptalands. Tvö lið, Bandaríkin og Tékkland, hættu við keppni vegna hópsmita og komu Sviss og Norður-Makedónía inn í þeirra stað.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×