Handbolti

Of dýrt að gera svo mörg mistök í svona stórleik

Sindri Sverrisson skrifar
Gilberto Duarte átti stundum í vandræðum með að stöðva Gísla Þorgeir Kristjánsson en rífur hér vel í treyju hans.
Gilberto Duarte átti stundum í vandræðum með að stöðva Gísla Þorgeir Kristjánsson en rífur hér vel í treyju hans. EPA/Khaled Elfiqi

„Við gerðum fimmtán tæknifeila og þetta er bara tveggja marka tap. Þetta er nú ekki meira en það,“ sagði Gísli Þorgeir Kristjánsson sem komst einna best frá sínu í sóknarleik Íslands í kvöld, í 25-23 tapinu gegn Portúgal á HM í handbolta.

„Við vissum alveg fyrir fram að Portúgalarnir eru ótrúlega klókir. Ég veit ekki hversu oft höndin var komin upp hérna í seinni hálfleik [til marks um yfirvofandi leiktöf] og þeir svoleiðis ná að spila ótrúlega lengi og eru bara klókir. Portúgalarnir eru bara góðir, það vita það allir,“ sagði Gísli í viðtali við RÚV í Egyptalandi.

„Við erum samt allan tímann inni í þessum leik. Við erum alltaf að komast inn í leikinn en gerum þá tæknifeila eða förum með dauðafæri. Í svona stórum leik eins og þessum er of dýrt að gera 15 tæknifeila, fara með hraðaupphlaup eða hvað sem það heitir,“ sagði Gísli sem vildi ekki gera of mikið úr öflugum varnarleik Portúgala:

„Þeir voru mjög þéttir en mér fannst að þegar við komum hundrað prósent á þetta og gleymdum bara þessum vafa, eða einhverju hiki, þá fengum við alltaf færi fannst mér. Við komumst alltaf framhjá þeim, einn gegn einum, ef við gerðum það hundrað prósent. Þeir eru auðvitað með flotta vörn en mér fannst við leysa það á köflum ágætlega í kvöld. En það eru dauðafærin og tæknifeilarnir sem fara með þetta,“ sagði Gísli í beinni útsendingu RÚV.


Tengdar fréttir

Þetta hafði Twitter að segja um tapið gegn Portúgal

Ísland mætti Portúgal í fyrsta leik liðsins á HM í handbolta sem nú fer fram í Egyptalandi. Þetta var þriðja viðureign liðanna á stuttum tíma en nú höfðu Portúgalir betur, lokatölur 25-23 og tap staðreynd í fyrsta leik Íslands á HM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×