Viðskipti innlent

Söknuðu starfsmanns hjá Skattinum og forrituðu yrki í hans stað

Eiður Þór Árnason skrifar
Haraldur I. Birgisson, sviðsstjóri skatta- og lögfræðilöggjafar Deloitte kynnti Steinþór á Skattadeginum í gær.
Haraldur I. Birgisson, sviðsstjóri skatta- og lögfræðilöggjafar Deloitte kynnti Steinþór á Skattadeginum í gær. Samsett

Um árabil sendi Steinþór Haraldsson hjá Ríkisskattstjóra út fréttabréf að eigin frumkvæði til ráðgjafa, stjórnenda fyrirtækja og áhugafólks um skattamál.

Ábendingar hans hjálpuðu ýmsum að fylgjast vel með breytingum sem áttu sér stað víðs vegar í skattkerfinu og gætu haft þýðingu fyrir fólk og fyrirtæki. Þegar Steinþór fór á eftirlaun síðasta vor voru góð ráð dýr þar sem með brotthvarfi hans hvarf mikilvæg upplýsingagjöf sem sparaði mörgum mikinn tíma og vinnu.

Starfsmenn Skatta- og lögfræðiráðgjafar Deloitte voru á meðal þeirra sem sáu á eftir Steinþóri og hans upplýsingaþjónustu. Þeir ákváðu að láta ekki sitt eftir liggja og létu útbúa forrit sem fylgist sjálfkrafa með uppfærslum á hátt í 40 vefsíðum opinberra aðila, tekur saman breytingar tengdar skattamálum og sendir út fréttabréf.

Hlaut nafnið Steinþór

Útkoman er yrkið (e. bot) Steinþór sem var auðvitað nefndur í höfuðið á starfsmanninum fræga. Haraldur I. Birgisson, sviðsstjóri Skatta- og lögfræðilöggjafar Deloitte, kynnti Steinþór á Skattadeginum sem fram fór í gær. 

Fylgist yrkið meðal annars með nýjum lagafrumvörpum, nefndarálitum, frumvarpsdrögum og úrskurðum, fólki að endurgjaldslausu. Fram kom í máli Haralds í gær að til stæði að þróa tæknilausnina áfram og reyna þannig að fylla í hluta þess skarðs sem Steinþór Haraldsson skildi eftir sig.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×