Handbolti

Leikir gegn Portúgal á stórmótum: Erfiður Resende, sætur sigur á heimavelli Portúgala og draumaleikur Janusar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Besti landsleikur Janusar Daða Smárasonar var gegn Portúgal á EM í fyrra.
Besti landsleikur Janusar Daða Smárasonar var gegn Portúgal á EM í fyrra. vísir/hulda margrét

Ísland mætir Portúgal í þriðja sinn á átta dögum þegar liðin leiða saman hesta sína í F-riðil á HM í Egyptalandi í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30 og verður í beinni textalýsingu á Vísi.

Ísland og Portúgal skiptu sigrunum á milli sín í undankeppni EM 2022. Níu marka sigur Íslendinga á Ásvöllum á sunnudaginn gerir það hins vegar að verkum að þeir verða fyrir ofan Portúgala ef liðin verða jöfn að stigum í riðlinum.

Leikurinn í kvöld er afar mikilvægur í baráttunni um toppsætið í F-riðli og upp á að taka með sér stig í milliriðil.

Þetta verður fimmti leikur Íslands og Portúgals á stórmótum. Þau mættust þrisvar í upphafi aldarinnar þegar Portúgalir voru með sterkt lið og svo á EM í fyrra.

Ísland 25-28 Portúgal, EM 2000

Fyrsta Evrópumót Íslendinga reyndist engin frægðarför. Strákarnir okkar töpuðu öllum fimm leikjum sínum í riðlakeppninni en unnu svo Úkraínu í leiknum um 11. sætið.

Í öðrum leik sínum í B-riðli tapaði Ísland með þriggja marka mun fyrir Portúgal, 25-28. Carlos Resende, sem var besti leikmaður Portúgala á þessum tíma, skoraði tíu mörk fyrir Portúgali sem voru marki yfir í hálfleik, 13-14.

Portúgalir náðu undirtökunum um miðjan seinni hálfleik og náði mest sex marka forskoti, 20-26. Á endanum munaði þremur mörkum á liðunum.

Valdimar Grímsson var langbesti maður Íslands með níu mörk. Ólafur Stefánsson skoraði fimm mörk.

Mörk Íslands: Valdimar Grímsson 9/4, Ólafur Stefánsson 5, Patrekur Jóhannesson 4, Róbert Sighvatsson 2, Gústaf Bjarnason 2, Magnús Már Þórðarson 2, Magnús Sigurðsson 1.

Ísland 22-19 Portúgal, HM 2001

Íslendingar og Portúgalir lentu einnig saman í riðli á heimsmeistaramótinu í Frakklandi 2001 og aftur áttust þau við í öðrum leik riðlakeppninnar.

Portúgal vann stórsigur á Tékklandi í fyrsta leik sínum, 29-19, á meðan Ísland tapaði fyrir Svíþjóð, 24-21, eins og alltaf á þessum árum.

Íslendingar náðu fram hefndum gegn Portúgölum og unnu góðan þriggja marka sigur, 22-19. Íslenska vörnin var gríðarlega í seinni hálfleik þar sem Portúgal skoraði aðeins átta mörk. Róbert Sighvatsson og Róbert Julian Duranona skoruðu fimm mörk hvor fyrir íslenska liðið.

Ísland endaði í 3. sæti A-riðils og féll svo úr leik fyrir Júgóslavíu, 27-31, í sextán liða úrslitunum. Þetta reyndist síðasta stórmót Þorbjörns Jenssonar með íslenska liðið.

Mörk Íslands: Róbert Sighvatsson 5, Róbert Julian Duranona 5/1, Ólafur Stefánsson 4/2, Einar Örn Jónsson 3, Guðjón Valur Sigurðsson 2, Aron Kristjánsson 1, Patrekur Jóhannesson 1, Dagur Sigurðsson 1.

Ísland 29-28 Portúgal, HM 2003

Ísland og Portúgal voru saman í riðli á þriðja stórmótinu á fjórum árum á HM 2003 sem fór einmitt fram í Portúgal.

Liðin áttust við í miklum spennuleik í þriðja leik riðlakeppninnar þar sem Ísland hafði sigur, 29-28. Íslendingar voru marki yfir í hálfleik, 14-13.

Portúgal komst tveimur mörkum yfir, 24-26, og hefðu getað náð þriggja marka forskoti en Roland Valur Eradze kom í veg fyrir það með því að verja víti. Ísland skoraði svo fimm af síðustu sjö mörkum leiksins og vann sætan sigur, 29-28. Sigfús Sigurðsson skoraði sigurmarkið.

Hornamennirnir Guðjón Valur Sigurðsson og Einar Örn Jónsson skoruðu sjö mörk hvor og Roland átti góða innkomu og varði vel.

Ísland missti naumlega af sæti í undanúrslitum á HM 2003 og endaði að lokum í 7. sæti mótsins. Sigurinn á Júgóslavíu, 32-27, í leiknum um 7. sætið tryggði Íslandi sæti á Ólympíuleikunum 2004 í Aþenu.

Mörk Íslands: Guðjón Valur Sigurðsson 7, Einar Örn Jónsson 7, Ólafur Stefánsson 5/2, Sigfús Sigurðsson 3, Patrekur Jóhannesson 2, Rúnar Sigtryggsson 2, Heiðmar Felixson 1, Sigurður Bjarnason 1, Aron Kristjánsson 1.

Ísland 28-25 Portúgal, EM 2020

Portúgalir hristu heldur betur upp í hlutunum í fyrsta leik sínum á EM 2020 með því að vinna Frakka, 28-25. Þeir komust með sannfærandi hætti í milliriðla þar sem þeir mættu Íslendingum.

Portúgalir unnu tíu marka sigur á Svíum, 35-25, í fyrsta leik sínum í milliriðli á meðan Íslendingar töpuðu fyrir Slóvenum, 30-27. Það var þó ekki að sjá í upphafi leiks þar sem Ísland var miklu sterkara, skoraði fyrstu fjögur mörkin og komst í 8-2.

Portúgal komst þó inn í leikinn og í hálfleik munaði bara tveimur mörkum á liðunum, 14-12. Portúgalir byrjuðu seinni hálfleikinn svo betur og komust yfir, 16-17, í eina skiptið í leiknum. Ísland svaraði með 5-1 kafla og komst yfir, 21-18. Portúgal jafnaði í 22-22 en Ísland var sterkara á lokakaflanum og vann þriggja marka sigur, 28-25.

Janus Daði Smárason átti sinn besta landsleik á ferlinum og skoraði átta mörk. Aron Pálmarsson, Alexander Petersson og Guðjón Valur Sigurðsson skoruðu allir fimm mörk. Leikurinn var síðasti sigurleikur þess síðastnefnda með íslenska landsliðinu. Björgvin Páll Gústavsson átti mjög góðan leik í markinu og varði sextán skot (fjörtíu prósent).

Ísland endaði að lokum í 11. sæti á EM á meðan Portúgal endaði í því sjötta og tryggði sér þar með sæti í Ólympíuumspili. 

Mörk Íslands: Janus Daði Smárason 8, Guðjón Valur Sigurðsson 5, Aron Pálmarsson 5, Alexander Petersson 5, Bjarki Már Elísson 2/2, Arnór Þór Gunnarsson 1, Sigvaldi Guðjónsson 1, Ólafur Guðmundsson 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×