Erlent

Burns mun stýra leyni­þjónustunni CIA

Atli Ísleifsson skrifar
William Burns var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna á árunum 2011 til 2014.
William Burns var aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna á árunum 2011 til 2014. Getty

Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, mun tilnefna William Burns sem næsta forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar CIA. Hinn 64 ára Burns hefur áður starfað sem diplómati í bandarísku utanríkisþjónustunni og gegndi embætti aðstoðarutanríkisráðherra á árunum 2011 til 2014.

Í frétt Reuters segir að Burns starfaði í bandarísku utanríkisþjónustunni í 33 ár, meðal annars sem sendiherra í Rússlandi, og átti sem aðalsamningamaður Bandaríkjanna þátt í að ná samkomulagi við Írani um kjarnorkuáætlun þeirra árið 2015.

Burns hefur að undanförnu starfað sem forseti hugveitunnar Carnegie Endowment for International Peace. Öldungadeild Bandaríkjaþings þarf að staðfesta Burns í embætti. 

Burns mun taka við embættinu af Ginu Haspel, sem tók við stöðunni af Mike Pompeo árið 2018 þegar hann var gerður að utanríkisráðherra í ríkisstjórn Donalds Trump.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×