Handbolti

Bjarka vantaði ekki mikið upp á að fá tíu fyrir sóknarleikinn sinn í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði níu mörk úr tíu skotum í leiknum á Ásvöllum í gær.
Bjarki Már Elísson skoraði níu mörk úr tíu skotum í leiknum á Ásvöllum í gær. Vísir/Hulda Margrét

Bjarki Már Elísson fékk hæstu einkunnina hjá HB Statz af íslensku strákunum í sigrinum á Portúgal í undankeppni EM í gær.

Íslenska liðið vann flottan níu marka sigur þrátt fyrir að lenda fimm mörkum undir í fyrri hálfleiknum. Góður endir á fyrri hálfleik og mjög góður seinni hálfleikur tryggði íslensku strákunum glæsilegan sigur.

Bjarki Már Elísson fékk 8,1 í einkunn fyrir frammistöðu sína en það var einkunn hans fyrir sóknarleikinn sem vakti meiri athygli.

Bjarki Már nýtti 9 af 10 skotum sínum í leiknum og öll skotin hans komu utan af velli. Hann fékk 9,8 í sóknareinkunn en vantaði líklega meira af stoðsendingum til að komast í tíuna. Bjarki náði ekki að skapa færi fyrir félaga sína en hann tapaði heldur ekki boltanum og klikkaði bara á einu skoti í leiknum.

Næstbestu einkunnina hjá íslenska liðinu fékk varamarkvörðurinn Ágúst Elí Björgvinsson sem fékk 7,5 í einkunn. Markmannseinkunn hans var 8,5. Ágúst Elí varði 11 af 27 skotum sem kom á hann þar af 1 af 3 vítum. hann skoraði líka eitt mark sjálfur og gaf eina stoðsendingu.

Elvar Örn Jónsson, sem var hæstur í leiknum út í Portúgal, fékk þriðju hæstu einkunnina að þessu sinni eða 7,4. Elvar skoraði fimm mörk úr tíu skotum og gaf líka fimm stoðsendingar.

Elvar var með hæstu einkunn íslensku strákanna fyrir varnarleikinn en þar voru þeir Elliði Snær Viðarsson og Ýmir Örn Gíslason í næstu sætum.

Besta einkunn íslensku strákanna í gær:

  • 1. Bjarki Már Elísson 8,1
  • 2. Ágúst Elí Björgvinsson 7,5
  • 3. Elvar Örn Jónsson 7,4
  • 4. Ómar Ingi Magnússon 6,9
  • 5. Elliði Snær Viðarsson 6,6
  • 5. Arnór Þór Gunnarsson 6,6
  • Bestur í sóknarleiknum:
  • 1. Bjarki Már Elísson 9,8
  • 2. Ómar Ingi Magnússon 8,3
  • 3. Elvar Örn Jónsson 7,4
  • 4. Arnór Þór Gunnarsson 7,0
  • Bestur í varnarleiknum:
  • 1. Elvar Örn Jónsson 7,3
  • 2. Elliði Snær Viðarsson 6,8
  • 2. Ýmir Örn Gíslason 6,8
  • 4. Arnór Þór Gunnarsson 6,6

Tengdar fréttir

Bjarki Már Elísson: Við erum fæddir með karakter

„Það er mjög gaman að vinna seinni hálfleikurinn var góður en sá fyrri alveg skelfilegur, við gerðum vel í að snúa þessu við og fara inn í hálfleikinn einu marki undir í stað fleiri sem við nýttum síðan í seinni hálfleik og unnum leikinn,” sagði markahæsti leikmaður liðsins kátur eftir 32-23 sigur Íslands á Portúgal í undankeppni EM í handbolta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×