Menning

Tilkynning Helga Tómassonar vekur athygli í listaheiminum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Helgi Tómasson árið 2016 þegar San Francisco-ballettinn sýndi í Hörpu.
Helgi Tómasson árið 2016 þegar San Francisco-ballettinn sýndi í Hörpu. Stöð 2

Einn kunnasti listamaður Íslendinga, Helgi Tómasson, tilkynnti í gær að hann hygðist láta af störfum á næsta ári sem listrænn stjórnandi og aðaldanshöfundur San Francisco-ballettsins. Helgi, sem orðinn er 78 ára gamall, tók við stjórn ballettflokksins fyrir 35 árum eftir farsælan feril sem ballettdansari þar sem hann skapaði sér nafn sem einn besti karldansari heims.

Umfjöllun alþjóðlegra fjölmiðla um ákvörðun Helga er til marks um stöðu hans í listaheiminum. Þannig birtir The New York Times viðtal við Helga af þessu tilefni þar sem hann segir að þetta sé kannski rétti tíminn. Ballettflokkurinn standi núna mjög sterkt, dansararnir dansi frábærlega og hann vilji gefa stjórn hans nægan tíma til að finna eftirmann.

„Hin ástæðan er að eiginkona mín og ég viljum eyða meiri tíma með fjölskyldu okkar,“ segir Helgi.

Í fréttatilkynningu frá San Francisco-ballettinum segir að Helgi muni áfram starfa með honum næstu átján mánuði. Stjórnarformenn ballettsins hrósa starfi hans þar í hástert. Undir stjórn hans hafi flokkurinn skapað sér alþjóðlega viðurkenningu sem einn fremsti ballettflokkur heims.

Ævisaga Helga Tómassonar, sem Þorvaldur Kristinsson ritaði, kom út árið 2017. Þar er rakinn ævintýralegur ferill hans, allt frá æskuárum í Vestmannaeyjum, þar sem hann fæddist árið 1942. Árið 2007 sæmdi forseti Íslands Helga stórkrossi fálkaorðunnar, sem er æðsta viðurkenning lýðveldisins til einstaklinga.

San Francisco-ballettinn hefur nokkrum sinnum sýnt á Íslandi. Hér má sjá viðtal Stöðvar 2 við Helga árið 2016 þegar flokkurinn steig í fyrsta sinn á fjalir Hörpu:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.