Fótbolti

Marta trúlofaðist samherja sínum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marta hefur sex sinnum verið valin besti leikmaður heims.
Marta hefur sex sinnum verið valin besti leikmaður heims. getty/Andrew Bershaw

Ein besta fótboltakona allra tíma, hin brasilíska Marta, hefur trúlofast samherja sínum hjá Orlando Pride, Toni Pressley.

Marta deildi gleðitíðindunum með fylgjendum sínum á Instagram. „Þetta er annar kafli í sögu sem við erum að skrifa saman,“ skrifaði Marta við myndir af þeim Pressley. Þær hafa leikið saman með Orlando Pride síðan 2017.

Marta hefur sex sinnum verið besti leikmaður heims, þar af fimm sinnum í röð á árunum 2006-10. Hún er markahæst í sögu heimsmeistaramóts kvenna með sautján mörk og er fyrsti leikmaðurinn sem skoraði á fimm heimsmeistaramótum.

Hin 34 ára Marta hefur skorað 108 mörk í 154 leikjum með brasilíska landsliðinu. Hún lék sinn fyrsta landsleik 2002, þá aðeins sextán ára.

Pressley, sem er þrítug, er bandarískur varnarmaður. Hún hefur leikið í heimalandinu allan sinn feril fyrir utan stutt stopp í Rússlandi og Ástralíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×