Erlent

Ætla að hefja skemmtiferðasiglingar í ágúst

Andri Eysteinsson skrifar
Skemmtiferðaskip við höfn í borginni Tampa í Flórída.
Skemmtiferðaskip við höfn í borginni Tampa í Flórída. AP/Chris O'Meara

Skemmtiferðaskipaútgerðin Carnival Cruise Line ætlar að hefja áætlunarferðir sínar í Norður Ameríku að nýju í ágúst.

Skip fyrirtækisins munu leggja af stað í ferðir um Karíbahafið frá höfnum í Galveston í Texas og í Port Canaveral í Flórída í kringum mánaðamótin júlí – ágúst. Þegar að brottför kemur verða liðnir fimm mánuðir frá því að starfsemi stöðvaðist vegna faraldurs kórónuveirunnar.

Aðrar ferðir, til Ástralíu og til Havaí, verður annaðhvort aflýst eða frestað enn frekar.

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna gaf út tilskipun um miðjan mars-mánuð þar sem skemmtiferðasiglingar voru settar á ís og mun bannið standa til 24. júlí hið minnsta.

Í faraldrinum hefur sést að smit getur auðveldlega dreifst um skemmtiferðaskip og segja forráðamenn Carnival Cruise Line að vinna sé í gangi við að kortleggja smitleiðir og ákvarða hvaða aðgerðir munu henta best þegar siglingar hefjast að nýju.

„Það þyrfti að viðhalda fjarlægð á milli manna. Mjög ósennilegt að hægt verði að halda dansleiki, tónleika og annarskonar skemmtanir á bátnum,“ segir Tara Smith, smitsjúkdómafræðingur hjá Kent State Háskólanum í samtali við AP.

„Sundlaugar yrðu eflaust yfirfullar og ég hef ekki hugmynd hvernig fyrirkomulag verði á matartíma,“ sagði Smith.

Carnival Cruise Line er rekið út frá Miami í Flórída og sigla 27 skemmtiferðaskip undir merkjum félagsins. Upphaflegar áætlanir fyrirtækisins voru á þá leið að hægt yrði að hefja siglingar að nýju 10. Apríl. Það gekk ekki upp.

Fjárhagsstaða fyrirtækisins er þó sögð sterk og telja stjórnarmenn að fyrirtækið geti lifað af út árið þrátt fyrir að hagnaður vegna siglinga stöðvist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×