Innlent

Hafa sett mörg verkefni á ís

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum verður af yfir þrjú hundruð milljónum króna á árinu vegna hruns í ferðaþjónustunni. Þjóðgarðsvörður segir að fresta þurfi viðhaldsverkefnum vegna þessa.

Síðustu ár hafa reglulega verið sett aðsóknarmet á Þingvöllum. Einar Sæmundsen þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, áætlar að á síðasta ári hafi um ein og hálf milljón ferðamanna komið á Þingvelli. Síðustu vikurnar hafa ferðamennirnir verið örfáar og það hefur haft mikla þýðingu þegar kemur að tekjum þjóðgarðsins.

„Á síðustu tveimur árum hafa tekjurnar á bílastæðunum verið um 190 milljónir og það hefur munað um minna í rekstri þjóðgarðsins og ég held að kannski menn átti sig ekki á því hvað í rauninni sértekjurnar hafa skipað stórt hlutfall af rekstrartekjum þjóðgarðsins,“ segir Einar.

Hann segir útlit fyrir að þjóðgarðurinn verði á þessu ári af ríflega þrjú hundruð milljónum króna vegna fækkunar ferðamanna.

„Þjóðgarðurinn hefur í rauninni náð að byggja upp mikla starfsemi hér á undanförnum árum og með svona góðu sértekjustreymi eins og bílstæðagjöldunum og við höfum verið hérna með verslanirnar og við höfum verið með ferðaþjónustu í Silfru.“

Einar segir hrun í tekjunum hafa haft áhrif á viðhaldsverkefni sem ráðast átti í. „Við höfum óhjákvæmilega sko skorið niður og sett á ís mjög mikið af verkefnum, viðhaldsverkefnum, svona litlum verkefnum og svona minniháttar verkefnum sem að við hefðum ætlað að framkvæma fyrir hluta af þessum tekjum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×