Erlent

6,6 milljónir sækja um atvinnuleysisbætur á einni viku

Samúel Karl Ólason skrifar
Fólk bíður í röð eftir því að geta sótt um atvinnuleysisbætur í Los Angeles.
Fólk bíður í röð eftir því að geta sótt um atvinnuleysisbætur í Los Angeles. AP/Marcio Jose Sanchez

Umsóknir um atvinnuleysisbætur í Bandaríkjunum hafa tvöfaldast á einni viku, úr 3,3 milljónum í þar síðustu viku, sem var met, í það að 6,6 milljónir sóttu um bætur í síðustu viku. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Vinnumálastofnun Bandaríkjanna birti í dag.

Þróunin er til marks um mikla aukningu í brottrekstri og rekstrarvanda fyrirtækja, þrátt fyrir að líklega sé einhver hluti umsóknanna frá fyrri vikunni og ekki hafi tekist að ganga frá þeim.

Samkvæmt AP fréttaveitunni segja hagfræðingar að atvinnuleysi gæti náð allt að fimmtán prósentum í þessum mánuði. Það mesta sem það hefur verið í Bandaríkjunum var 10,8 prósent árið 1982. Þá sóttu 695 þúsund manns um atvinnuleysisbætur á einni viku.

Þing Bandaríkjanna gerði bætur á atvinnuleysisbótakerfi ríkisins í síðustu viku og jók bæturnar auk þess sem skilyrðum var breytt svo fleiri hefðu rétt á þeim.

Í frétt New York Times segir að fyrir mánuði síðan hafi flestir greinendur staðið í þeirri trú að Bandaríkin gætu sloppið við samdrátt. Nú er óttast að landsframleiðsla muni dragast verulega saman.


Tengdar fréttir

Fjórfalt fleiri sóttu um atvinnuleysisbætur en nokkru sinni fyrr

Fleiri en þrjár milljónir Bandaríkjamanna sóttu um atvinnuleysisbætur í síðustu viku og er það fjórfalt fleiri en nokkru sinni hafa gert það. Hagfræðingar vara við því að atvinnuleysi vegna efnahagslegra áhrifa kórónuveiruheimsfaraldursins gæti náð allt að 13% í maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×