Erlent

Læknir í fram­línu New York borgar fannst látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Lorna Breen starfaði við New York-Presbyterian Allen sjúkrahúsið á Manhattan.
Lorna Breen starfaði við New York-Presbyterian Allen sjúkrahúsið á Manhattan. Facebook-síða Lornu Breen

Læknir sem hefur verið í framlínu yfirvalda í New York í baráttunni gegn kórónuveirunni fannst látin um helgina. Er talið að hún hafi svipt sig lífi.

Lorna Breen, sem var forstjóri lækninga við New York-Presbyterian Allen sjúkrahúsið á Manhattan, fannst látin á sunnudaginn að því er segir í yfirlýsingu frá lögreglu.

„Hún reyndi að sinna starfi sínu og það varð henni að bana,“ hefur New York Times eftir Philip Breen, föður Lornu Breen.

New York hefur farið illa út úr faraldri kórónuveirunnar, en af um 56 þúsund skráðum dauðsföllum sem rakin eru til Covid-19 í Bandaríkjunum hafa um 17.500 átt sér stað í New York, eða um þriðjungur.

Philip Breen segir dóttur sína ekki hafa glímt við andlega sjúkdóma en að hún hafi verið „fjarlæg“ síðustu dagana og lýst því hvernig sjúklingar hafi látist í hrönnum. „Hún var sannarlega í skotgröfunum í framlínunni.“

Lorna Breen lést í Charlottsville í Virginíu þar sem hún hafði dvalið með fjölskyldu sinni síðustu daga. Hún hafði sjálf smitast af kórónuveirunni en snúið aftur til vinnu eftir að hafa haldið sig heima í eina og hálfa viku. Yfirmenn á sjúkrahúsinu hafi hins vegar vísað henni aftur heim til að hún gæti jafnað sig frekar og hafi fjölskylda hennar farið með hana til Charlottsville.

„Tryggið að hylla hana sem hetju. Hún er fórnarlamb líkt og allir aðrir sem hafa látist,“ hefur NYT eftir föður Lornu Breen.

Fólki með sjálfsvígshugsanir er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið. Þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri svara þeim símtölum og spjöllum sem berast. Fullum trúnaði er heitið. Nánari upplýsingar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×