Innlent

Hrókeringar í utanríkisþjónustunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Sendiherrar á fimm sendiskrifstofum verða færðir til í starfi í reglulegum hrókeringum.
Sendiherrar á fimm sendiskrifstofum verða færðir til í starfi í reglulegum hrókeringum. Vísir/Vilhelm

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur ákveðið flutninga forstöðumanna sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni. Gunnar Pálsson sendiherra sem opinberlega hefur gagnrýnt að til hafi staðið að flytja hann frá París til Nýju Delí kemur til starfa í utanríkisráðuneytinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson stefnir á breytingar á reglum um skipan sendiherra og vill að stöðurnar verði auglýstar í framtíðinniVísir/Vilhelm

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að ákvörðun utanríkisráðherra á skipan á fimm sendiskrifstofum hafi verið tilkynnt viðkomandi hinn 11. mars síðast liðinn.  Þær feli ekki í sér skipun nýrra sendiherra heldur sé eingöngu um flutninga núverandi sendiherra og sendifulltrúa að ræða.

Kristján Andri Stefánsson sem gegnt hafi stöðu sendiherra Íslands í París verði sendiherra í Brussel. Gunnar Pálsson sem gegnt hafi stöðu sendiherra þar komi til starfa í ráðuneytinu. Unnur Orradóttir sem gegnt hefur stöðu sendiherra Íslands í Kampala verður sendiherra í París  og tekur Þórdís Sigurðardótti sendifulltrúi við af Unni sem forstöðumaður sendiráðsins í Kampala. Guðmundur Árni Stefánsson sem gegnt hefur stöðu sendiherra Íslands í Nýju-Delí verður aðalræðismaður Íslands í Winnipeg í Kanada.

Í tilkynningunni segir að tilkynnt verði um hver taki við forstöðu í Nýju-Delí síðar. Áður hafi verið tilkynnt um flutninga sem varði sendiráðin í Moskvu, Helsinki og Stokkhólmi.

„Venju samkvæmt eru breytingar á skipan forstöðumanna sendiskrifstofa tilkynntar með fyrirvara um samþykki viðkomandi gistiríkis. Almennt er miðað við að framangreindar breytingar taki gildi 1. júlí en allir flutningar í utanríkisþjónustunni sumarið 2020 verða framkvæmdir með hliðsjón af aðstæðum sem fyrir hendi eru í gistiríkjum," segir í tilkynningu utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×