Lífið

Brad Pitt uppfyllti ósk hins bandaríska Þórólfs í SNL

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Brad Pitt í gervi Fauci.
Brad Pitt í gervi Fauci. Mynd/NBC

Yfirmaður smitsjúkdómastofnunar Bandaríkjanna, Dr. Anthony Fauci, sem gegnir sambærilegu hlutverki í baráttunni gegn kórónuveirufaraldrinum í Bandaríkjunum og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir gerir hér á landi, er orðin að óvæntri stjörnu í Bandaríkjunum. Svo mikilli stjörnu að sjálfur Brad Pitt brá sér í hans hlutverk í grínþættinum þekkta Saturday Night Live um helgina.

Greint hefur verið frá því að svokallað „Fauci-Fever“, sem þýða mætti sem Fauci-flensuna, hafi gripið um sig í Bandaríkjunum eftir að Fauci, heimsþekktur sérfræðingur í sóttvörnum, fór að birtast reglulega á skjám Bandaríkjamanna í tengslum við viðbrögð yfirvalda þar í landi vegna kórónuveirunfaraldsins. Ekki ósvipað því sem gerst hefur hér á landi í tengslum við þríeykið svokallaða.

Í SNL-þætti helgarinnar brá enginn annar en Brad Pitt sér í líki Fauci þar sem hann fór yfir og leiðrétti það sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur verið að segja á daglegum upplýsingafundum hans.

Raunar vill svo til að Fauci hafði sjálfur óskað eftir því að Pitt myndi leika sig, en í viðtali við CNN fyrr í apríl var Fauci spurður að því hvort hann vildi að Ben Stiller eða Brad Pitt myndu leika hann, kæmi til þess í framtíðinni.

„Brad Pitt, að sjálfsögðu,“ svaraði Fauci. Honum varð að ósk sinni en atriðið úr SNL má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×