Sport

Geta byrjað að æfa 18. maí og vonast eftir því að deildin fari af stað í júní

Anton Ingi Leifsson skrifar
Cristiano Ronaldo í leik með Juventus á leiktíðinni.
Cristiano Ronaldo í leik með Juventus á leiktíðinni. Getty/Marco Canoniero

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, staðfesti í kvöld að íþróttalið landsins geta hafið æfingar á nýjan leik þann 18. maí næstkomandi.

Þetta þýðir að ítalska úrvalsdeildin í knattspyrnu geti farið að rúlla í júní en ekkert hefur verið spilað í deildinni síðan 9. mars er landinu var lokað vegna kórónuveirunnar.

Tólf umferðir eru eftir í ítalska boltanum en einnig átti eftir að klára fjóra leiki úr 25. umferðinni. Ítalski bikarinn var kominn fram í undanúrslitin þar sem fyrri leikjunum var lokið.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir leikur með AC Milan í Seríu A. Þar eru sex umferðir eftir og AC Milan er í 3. sæti deildarinnar.

Ásamt því að tilkynna að íþróttafélög landsins geti hafist handa við æfingar þann 18. maí sagði Conte að einstaklingsíþróttir geti byrjað að æfa á fullum krafti þann 4. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×