Innlent

Alvarlega slasaður eftir vélhjólaslys

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Maðurinn fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann í Reykjavík.
Maðurinn fluttur með sjúkrabíl á Landspítalann í Reykjavík. Vísir/Vilhelm

Karlmaður á fimmtugsaldri var fluttur alvarlega slasaður á bráðamóttöku Landspítalans í gærkvöldi eftir vélhjólaslys á mótorkrossbrautinni í Garðaflóa við Akranes.

Fyrst var greint frá málinu á vef Skessuhorns en Gísli Björnsson, yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands, segir í samtali við Vísi að útkallið hafi komið klukkan hálfsjö. Sjúkraflutningamenn, lögregla og Björgunarfélag Akraness sinntu útkallinu.

Maður var einn á ferð þar sem hann hafði orðið viðskila við félaga sína en þeir komu að honum og kölluðu eftir aðstoð. Ekki er þó talið að maðurinn hafi legið lengi einn á mótorkrossbrautinni eftir að hafa fallið af hjólinu.

Gísli segir að björgunarsveitarmenn hafi aðstoðað við að bera manninn þar sem hann lá um 100 metra frá sjúkrabílnum sem kom á vettvang en bíllinn komst ekki nær manninum.

Hinn slasaði var fluttur beint á sjúkrahús í Reykjavík með alvarlega áverka á líkama. Að sögn Gísla fór hann í aðgerð í morgun en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um líðan hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×