Erlent

Fimmtungur íbúa New York gæti hafa smitast af Covid-19

Samúel Karl Ólason skrifar
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York.
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York. AP/John Minchillo

Mögulegt er að fimmtungur íbúa í New York borg hafi smitast af, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur. Þetta sagði Andrew M. Cuomo, ríkisstjóri New York, að nýleg rannsókn Þar sem sýni voru tekin úr þrjú þúsund manns hafi leitt í ljós. Fimmtungur þeirra sem tóku þátt í rannsókninni og eru frá New York borg greindust með mótefni við Covid-19.

Reynist niðurstaðan rétt er útlit fyrir að sjúkdómurinn hafi náð mun meiri dreifingu í borginni en áður hefur verið talið.

Allt að 2,7 milljónir manna gætu þá hafa smitast af veirunni. Stór meirihluti þeirra hefur þá ekki sýnt einkenni og ekki vitað af því að þau hafi smitast af veirunni, samkvæmt frétt New York Times.

Embættismenn í New York telja að mótefnaskimun sé lykilatriði í því að létta á félagsforðun og endurræsa efnahag ríkisins og því hvort það sé óhætt.

Í New York borg greindist 21 prósent þátttakenda með mótefni við Covid-19. Hlutfallið var 17 prósent í Long Island og minna annarsstaðar í ríkinu.

Alls hafa 15.700 manns dáið vegna Covid-19 í New York.

Ekki hefur verið staðfest hve mikla vörn mótefni við Covid-19 veita gegn sjúkdómnum og hve lengi ónæmi gæti varið. Þá varaði Cuomo við því að um bráðabirgðaniðurstöður væri að ræða.

Sambærileg rannsókn í Kaliforníu sýndi að um fjögur prósent íbúa í Santa Clara sýslu höfðu smitast af veirunni og þó það sé ekki nærri því jafn hátt hlutfall og í New York, er það töluvert hærra en áður var talið.

AP fréttaveitan segir að vísindamenn séu að skima fyrir mótefnum víðsvegar í Bandaríkjunum til að kortleggja útbreiðslu veirunnar. Sérfræðingar segja þörf á umfangsmiklum rannsóknum til að ná utan um raunverulega útbreiðslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×