Innlent

Leggja fram frumvarp um að fella niður launahækkanir ráðamanna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Í frumvarpinu er lagt til að laun alþingismanna og ráðherra hækki ekki fyrir næstu kosningar.
Í frumvarpinu er lagt til að laun alþingismanna og ráðherra hækki ekki fyrir næstu kosningar. Vísir/Vilhelm

Þingflokkar Pírata, Samfylkingar og Flokks fólksins hafa, ásamt Andrési Inga Jónssyni, lagt fram frumvarp um að fella niður launahækkun þingmanna og ráðherra frá 1. janúar 2020.

Þá er lagt til að öll afturvirk réttindi frá þeim tíma verði felld niður. Auk þess er lagt til í frumvarpinu að laun þingmanna og ráðherra verði fryst fram yfir næstu Alþingiskosningar, eða til ársloka 2021.

Frumvarpið var sent á alla þingmenn með beiðni um meðflutning.

Í tilkynningu um málið segir flutningsmenn telji að með samþykkt frumvarpsins geti þingmenn, sem þjóðkjörnir fulltrúar almennings, brugðist við „þeirri sjálfsögðu og eðlilegu kröfu“ að ráðamenn þiggi ekki launahækkanir á tímum heimsfaraldursins sem nú geisar.

Sjá einnig: Þing­menn, ráð­herrar og ráðu­neytis­stjórar fengu rausnar­lega launa­hækkun

Halldóra Mogensen, Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Ágúst Ólafur Ágústsson, Björn Leví Gunnarsson, Guðjón S. Brjánsson, Guðmundur Andri Thorsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Helga Vala Helgadóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, Inga Sæland, Jón Þór Ólafsson, Logi Einarsson, Oddný G. Harðardóttir, Smári McCarthy og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir eru flutningsmenn frumvarpsins eins og stendur.

Frumvarpið í heild sinni má nálgast hér.


Tengdar fréttir

Formenn flokkanna ræddu launahækkanir í dag

Fyrirhugaðar launahækkanir ráðherra og þingmanna voru ræddar á fundi formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi í morgun. Halldóra Mogensen, formaður þingflokks Pírata, segir flokk sinn tilbúinn með frumvarp um að fella niður hækkanirnar aðhafist ríkisstjórnin ekkert í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×