Íslenski boltinn

Pepsi Max-deild karla átti að hefjast með stórleik á Hlíðarenda í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pálmi Rafn Pálmason tryggði KR Íslandsmeistaratitilinn á Hlíðarenda í fyrra.
Pálmi Rafn Pálmason tryggði KR Íslandsmeistaratitilinn á Hlíðarenda í fyrra. vísir/bára

Keppni í Pepsi Max-deild karla átti að hefjast í kvöld með leik Vals og Íslandsmeistara KR á Origo-vellinum á Hlíðarenda.

Kórónuveirufaraldurinn setti hins vegar allt úr skorðum og liðin hafa ekki mátt æfa saman í nokkrar vikur. Banni við skipulögðum æfingum verður aflétt að hluta 4. maí og 3-4 vikum síðar mega liðin væntanlega byrja að æfa án allra takmarkana.

Stefnt að því að hefja keppni í Pepsi Max-deild karla 14. júní. Mótið hefst væntanlega í miðjum klíðum og leikirnir sem áttu að vera búnir að verða færðir aftar eða skotið inn á milli.

Eins og áður sagði áttu Valur og KR að mætast í upphafsleik Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Fjórir leikir áttu að fara fram á morgun, sumardaginn fyrsta, og 1. umferðinni átti svo að ljúka með leik Stjörnunnar og Fylkis á föstudagskvöldið.

KR tryggði sér 27. Íslandsmeistaratitilinn í sögu félagsins með sigri á Val á Origo-vellinum 16. september á síðasta ári. Pálmi Rafn Pálmason skoraði eina mark leiksins.

KR vann Pepsi Max-deildina með miklum yfirburðum, fékk fjórtán stigum meira en liðið í 2. sæti, Breiðablik. Valur olli miklum vonbrigðum í fyrra og endaði í 6. sæti. Eftir tímabilið var Heimir Guðjónsson ráðinn þjálfari Vals í stað Ólafs Jóhannessonar sem færði sig yfir til Stjörnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×