Íslenski boltinn

Sautján prósent knattspyrnuþjálfara á Íslandi fá greitt svart

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nær fimmtungur knattspyrnuþjálfara á Íslandi fær greitt svart fyrir sína vinnu.
Nær fimmtungur knattspyrnuþjálfara á Íslandi fær greitt svart fyrir sína vinnu. vísir/vilhelm

Sautján prósent knattspyrnuþjálfara á Íslandi fá greitt svart. Þetta kom fram í Sportinu í dag.

Hákon Sverrisson, formaður Knattspyrnuþjálfarafélags Íslands, var gestur þáttarins. Þar var fjallað um könnun sem KÞÍ gerði á meðal sinna félagsmanna og annarra knattspyrnuþjálfara um stöðu þeirra vegna kórónuveirunnar. Um 200 manns tóku þátt í könnununni.

Í henni var m.a. spurt hvernig þjálfarar fengju greitt. Sautján prósent sögðust fá greitt svart, þ.e. greiðslur sem eru ekki gefnar upp til skatts.

„Þetta eru kannski afleiðingar af gömlum vana fyrir tugum ára síðan þegar reynt var að halda úti starfsemi. Þá nýttu menn allar leiðir til að greiða þjálfurum eða búa til einhvers konar umbun. Og hún byrjaði væntanlega á þessu formi,“ sagði Hákon.

„Við sjáum á þessu að á mörgum stöðum sé umbun enn í formi þessara greiðslna. Við erum að reyna að fá fleiri inn í okkar félag til að við náum böndum utan um þetta og höfum meiri ramma í kringum starfið.“

Hvernig þjálfarar á Íslandi fá greitt fyrir sína vinnu.

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×