Erlent

Bandaríkjamenn tilbúnir að aflétta þvingunum ef Maduro stígur til hliðar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Bandaríkin viðurkenna ekki tilkall Nicoláss Maduro til valda í Venesúela.
Bandaríkin viðurkenna ekki tilkall Nicoláss Maduro til valda í Venesúela. Vísir/Getty

Bandarísk stjórnvöld hafa boðist til þess að aflétta viðskiptaþvingunum sínum gagnvart Venesúela, gegn því að síðarnefnda ríkið samþykki valdaskiptasamning sem felur í sér að núverandi forseti ríkisins, Nicolás Maduro, stigi til hliðar.

Í samningnum sem Bandaríkin hafa lagt til felst sá ráðahagur að sérstakt ráð myndi taka við völdum af Maduro þar til unnt yrði að kjósa í landinu. Bandaríkin hertu á viðskiptaþvingunum sínum gagnvart Venesúela á síðasta ári, með það fyrir augum að fá Maduro til að afsala sér völdum. Það hefur þó ekki tekist, en Maduro tók við völdum í landinu árið 2013.

Maduro nýtur stuðnings venesúelska hersins, auk þess sem stjórnvöld í Rússlandi, Kína og Kúbu hafa öll lýst yfir stuðningi við forsetann.

Tilboð Bandaríkjanna, sem lagt var fram af Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, rímar um margt við það sem kom fram í tilkynningu frá Juan Guaidó, sem er meginstjórnarandstöðuleiðtogi Venesúela, gaf frá sér um helgina. Hann er viðurkenndur af Bandaríkjunum og 60 öðrum ríkjum sem bráðabirgðaforseti Venesúela.

Efnahagsástand í Venesúela hefur um árabil verið afar slæmt. Á síðasta ári náði verðbólgan í ríkinu 800 þúsund prósentum. Þá hafa tæpar 4,8 milljónir flúið landið vegna efnahagsástandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×