Viðskipti innlent

Klæjar í puttana að byrja aftur að raka kafloðna og misklippta fastakúnna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Vel þarf að gæta að sóttvarnareglum á næstu vikum.
Vel þarf að gæta að sóttvarnareglum á næstu vikum. Unsplash/John Karlo Mendoza

Kjartan Björnsson, rakarinn góðkunni á Selfossi, segist varla geta beðið eftir því að mega opna rakarastofu sína á Selfossi á nýjan leik þegar slakað verður á samkomubanninu. Hann segir ljóst að margir séu komnir á tíma í klippingu.

Hárnsyrtistofur hafa verið lokaðar í um fjórar vikur og munu ekki opna aftur fyrr en 4. maí þegar slakað verður á samkomubanninnu. Kjartan ræddi stöðu hármála á Selfossi og nærsveitum í Bítinu í morgun.

„Nú eru menn orðnir kafloðnir,“ sagði Kjartan enda ljóst að kominn sé tími á marga í klippingu eftir að samkomubannið var sett á. Hann segir meira að segja að sumir hafi verið svo örvæntingarfullir að þeir hafi beðið hann um að koma heim til sín að klippa.

„Það er einfaldlega ekki hægt að standa í því, þá væri maður að fara á svig við reglur og lög og við höfum ekki áhuga á því,“ segir Kjartan og ljóst er af orðum hans að ekki sé vanþörf á því að Selfyssingar komist í klippingu, enda hafi hann séð skrautlegar heimagerðar tilraunir á undanförnum vikum.

„Svo hittir maður menn út í búð þar sem er búið að taka öðru megin og þá virkaði ekki vélin og svona, þetta er alveg svakalegt að sjá suma,“ sagði Kjartan á léttu nótunum.

Býst hann því við að það verði mikið að gera þegar rakarastofa hans opnar á ný, og er til skoðunar að taka upp númerakerfi til þess að stýra flæðinu inn á stofuna. Það yrði þá í fyrsta sinn í hartnær áttatíu ár sem slíkt kerfi yrði sett upp á rakarastofunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×