Innlent

Reykjadalur er lokaður

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eins og sést á þessari mynd er gróður nokkuð illa farinn á svæðinu.
Eins og sést á þessari mynd er gróður nokkuð illa farinn á svæðinu. Umhverfisstofnun

Fyrir tæpri viku síðan, þann 15. apríl, var tekin ákvörðun um að loka hinu vinsæla útivistarsvæði Reykjadal í Ölfusi.

Var það annars vegar gert af öryggisástæðum og hins vegar til þess að hlífa gróðri í dalnum að því er fram kemur í færslu á Facebook-síðu Umhverfisstofnunar.

Afar vinsælt er bæði á meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna að ganga í Reykjadal en þar eru heitir hverir sem hægt er að baða sig í.

Að því er segir í færslu Umhverfisstofnunar eru hverirnir á svæðinu að grafa sig undir göngustíginn og hafa mikla skemmdir myndast við hverasvæði vegna traðks.

Undir lok síðasta árs lokaði landeigandi, ásamt sveitarfélögunum Ölfusi og Hveragerði, í samráði við lögreglu og Umhverfisstofnun, hluta gönguleiðanna við hverasvæðið, þar sem hverirnir voru að grafa sig undir stíginn.

Svæðið verður opnað á ný þegar aðstæður leyfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×