Erlent

Lífsnauðsynlegt að koma í veg fyrir smit á hjúkrunarheimilum: 34% smitaðra á dvalarheimili í Washington létust

Andri Eysteinsson skrifar
Frá hjúkrunarheimili í King County í Washington
Frá hjúkrunarheimili í King County í Washington Getty/David Ryder

Þriðjungur þeirra heimilismanna sem smituðust af kórónuveirunni á hjúkrunarheimili í Washington-ríki Bandaríkjanna létust af völdum veirunnar og var dánartíðni vegna hennar á meðal íbúa því 33,7% samkvæmt niðurstöðu samantektar sem birt hefur verið í the New England Journal of Medicine (NEJM).

Jón Snædal öldrunarlæknir á Landspítalanum deilir greininni á Facebook-síðu sinni og segir niðurstöðurnar frá Washington sýna að lífsnauðsynlegt sé að koma í veg fyrir smit á hjúkrunarheimilum.

Hjúkrunarheimilið sem um ræðir er staðsett í King County í Washington í Bandaríkjunum en kórónuveirunnar varð fyrst vart í ríkinu 21. janúar síðastliðinn eftir að veiran greindist í manni sem var á leið heim frá Wuhan í Kína. Fyrstu dauðsföllin áttu sér einnig stað í Washington 29. Febrúar.

Á hjúkrunarheimilinu, sem er viðfangsefni greinarinnar sem birt var á vef NEJM, komu upp 167 tilfelli kórónuveirunnar. 101 tilfelli greindist í heimilismönnum, 50 í starfsfólki hjúkrunarheimilisins og sextán gestir smituðust af veirunni.

Meðalaldur heimilismanna sem greindist með veiruna var 83 ár en íbúar voru á aldrinum 51-100 ára gamlir. 34 létust af völdum kórónuveirunnar en meirihluti íbúa glímdi við undirliggjandi sjúkdóma. Rúmlega helmingur smitaðra (54%) var lagður inn á sjúkrahús.

Úr röðum starfsfólks heimilisins var meðalaldurinn 43,5 ár og voru starfsmenn á aldrinum 21-79 ára gamlir, enginn lést af völdum kórónuveirunnar en hið minnsta þrír voru lagðir inn á sjúkrahús.

Einn af þeim sextán gestum sem smituðust af veirunni er nú látinn, en átta gestir voru lagðir inn á sjúkrahús vegna veirunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá John Hopkins háskólanum í Baltimore hafa nú tæplega 125 þúsund tilfelli kórónuveirunnar greinst í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×