Erlent

Segir milljónir geta dáið verði ekki gripið til aðgerða

Samúel Karl Ólason skrifar
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, segir ákvarðanir þjóðarleiðtoga um þessar mundir muna hafa áhrif áratugi fram í tímann.
Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, segir ákvarðanir þjóðarleiðtoga um þessar mundir muna hafa áhrif áratugi fram í tímann. epa/SALVATORE DI NOLFI

Verði ekki gripið til afgerandi aðgerða á heimsvísu gæti Covid-19, sjúkdómurinn sem nýja kórónuveiran veldur, fellt milljónir fólks. Þetta sagði Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, á fjarfundi leiðtoga G20 ríkja í dag. Ítrekaði hann hve smituðum hefur fjölgað hratt frá því veiran stakk fyrst upp kollinum.

Það tók 67 daga að staðfesta fyrstu hundrað þúsund smitin. Ellefu daga að staðfesta næstu hundrað þúsund smitin. Þriðju hundruð þúsundin tóku einungis fjóra daga og þau fjórðu tvo.

Nú er staðan sú á heimsvísu að rúmlega 526 þúsund hafa smitast, svo vitað sé, og tæplega 24 þúsund dáið. Rúmlega 120 þúsund hafa jafnað sig af sjúkdómnum, samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum.

Flest smit hafa nú verið staðfest í Bandaríkjunum.

Í ræðu sinni sagði Ghebreyesus að einungis tíminn gæti leitt í ljós hver heildarkostnaður heimsins yrði vegna faraldursins. Sama hve hár hann verður sagði Ghebreyesus að ylti á ákvörðunum þjóðarleiðtoga á næstu dögum og sagði hann að þær ákvarðanir myndu hafa afleiðingar áratugi fram í tímann.

Besta leiðin til að vernda mannslíf, lífsviðurværi fólks og efnahagi er samkvæmt Ghebreyesus að stoppa faraldurinn. Það verði einungis gert með umfangsmiklum og afgerandi aðgerðum.

„Berjist. Berjist af hörku. Berjist eins og fjandinn sjálfur. Berjist eins og líf ykkar velti á því, því þau gera það,“ sagði Ghebreyesus.

Hann kallaði einnig eftir samstöðu á heimsvísu og að ríki heimsins tækju höndum saman varðandi framleiðslu nauðsynja eins og hlífðarbúnaðar fyrir heilbrigðisstarfsmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×