Erlent

Maduro ákærður fyrir fíkniefnabrot í Bandaríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Maduro forseti með grímu fyrir vitum sér á fundi um kórónuveirufaraldurinn í Miraflores-forsetahöllinni í Caracas á sunnudag. Hann verður ákærður fyrir fíkniefnabrot í Bandaríkjunum.
Maduro forseti með grímu fyrir vitum sér á fundi um kórónuveirufaraldurinn í Miraflores-forsetahöllinni í Caracas á sunnudag. Hann verður ákærður fyrir fíkniefnabrot í Bandaríkjunum. Vísir/EPA

Alríkissaksóknarar í Bandaríkjunum ætla að ákæra Nicolas Maduro, forseta Venesúela, fyrir fíkniefnabrot í dag. Ákæran er sögð afurð rannsóknar sem teygði anga sína til Washington, New York og Flórída. Búist er við því að á annan tug venesúelskra embættismanna og liðsmanna kólumbísku skæruliðasveitanna FARC verði ákærður í málinu.

New York Times fullyrðir að bandaríska dómsmálaráðuneytið ætli að tilkynna um ákærurnar í dag. Lítið liggi enn fyrir um efni ákæranna annað en að þær varði svonefnd fíkniefnahryðjuverkabrot og samsæri um innflutning á kókaíni til Bandaríkjanna.

Á meðal þeirra sem eru sagðir verða ákærðir með Maduro eru venesúelskir leyniþjónustumenn, ríkisstjórn landsins og liðsmenn FARC. Skæruliðasamtökin eru lengi talin hafa fjármagnað sig með fíkniefnasmygli.

Bandaríkjastjórn viðurkennir Maduro ekki sem forseta Venesúela eftir umdeildar forsetakosningar í landinu árið 2018. Þess í stað telja þau Juan Guaidó réttmætan forseta Venesúela. Hann var forseti þingsins þegar hann lýsti sjálfan sig lögmætan forseta í janúar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×