Innlent

Bókasöfnum, sundlaugum og húsdýragarðinum lokað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kóparnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fá ekki gesti næstu vikurnar.
Kóparnir í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fá ekki gesti næstu vikurnar. Vísir/Vilhelm

Borgarbókasafnið verður lokað frá og með þriðjudeginum 24. mars í takt við hertar takmarkanir í yfirstandandi samkomubanni. Eins og sakir standa er reiknað með því að opna dyr safnanna aftur og gangsetja bókabílinn þriðjudaginn 14. apríl. Öllum viðburðum hefur verið frestað um sinn að því er segir í heimasíðu safnsins.

Von er á frekari upplýsingum frá Borgarbókasafninu varðandi starfsemi safnanna á meðan lokun stendur, útlán, frátektir, sektir og fleira í þeim dúrnum. Minnt er á rafbókasafnið.

Lokunin er í takti við aðrar lokanir á höfuðborgarsvæðinu vegna samkomubannsins sem miðast við tuttugu manns og tekur gildi á miðnætti.

Sundlaugar í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu verða lokaðar frá og með morgundeginum og sama gildir um söfn Reykjavíkurborgar, Listasafn Reykjavíkur og Borgarsögusafnið.

Engin hátíð á vegum borgarinnar er á dagskrá á næstu fjórum vikum og verður staðan metin varðandi Barnamenningarhátíð og aðrar hátíðir dragist samkomubannið á langinn.

Skíðalyftur í hverfum verða lokaðar, skíðasvæði sömuleiðis, ylströndin í Nauthólsvík, Skautahöllin í Laugardal og Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn.

Íþróttafélög gefa út eigin tilkynningar um tilhögun íþróttaæfinga í samkomubanni en þær eru í algjöru lágmarki og falla víðast hvar niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×