Innlent

Flestum flugferðum aflýst og sárafáir ferðamenn að koma

Lillý Valgerður Pétursdóttir og Andri Eysteinsson skrifa
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. Vísir/Birgir

Sárafáir ferðamenn koma til landsins þessa dagana og segir ferðamálastjóri fjölda þeirra sem fara um Leifsstöð vera allt niður í fjórðung af því sem áður var. Hann vonar að landsmönnum sem ferðast innanlands fjölgi í sumar. 

Búið er að aflýsa langflestum flugferðum um Keflavíkurflugvöll í dag líkt og síðustu daga. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir fáa á ferð. 

„Það eru sárafáar komur ferðamanna til landsins og það sést náttúrulega bara á talningunni í Keflavík að það eru sárafáir ferðamenn að koma og það endurspeglar ástandið í ferðaþjónustunni sem er og má gera ráð fyrir að verði á næstu vikum. Við erum að sjá að komur til landsins eru vel innan við þriðjungur, jafnvel fjórðungur, af því sem að eðlilegt er,“ segir Skarphéðinn.

 Skarphéðinn segir þetta hafa mikil áhrif á fyrirtæki í ferðaþjónustu. „Það eru fyrirtæki í gistingu sem er að sameina húsnæði, hótel og gistihús. Fyrirtæki í afþreyingu eru að gera ýmislegt í svipuðum dúr þannig að það er verulegur samdráttur,“ segir Skarphéðinn. Hann vonast til þess að þær aðgerðir sem stjórnvöld eru að grípa til komi í veg fyrir að fyrirtækin þurfi að segja upp fólki. 

Hann vonar að ástandið batni fyrir sumarið og að Íslendingar verði duglegir að ferðast innanlands í sumar. „Sumarið er mikilvægasti tími ársins. Þó að haustið verði gott þá ef sumarið á undan hefur verið lélegt þá er það sem ræður. Því að ferðamenn sem að koma á sumrin þeir dvelja lengur, þeir eyða meiru, þeir ferðast víðar um landið, þannig að það eru okkar mikilvægustu viðskiptavinir,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í hádegisfréttum Bylgjunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×