Viðskipti innlent

Lundabúðum lokað

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skilti sem boða brunaútsölur í minjagripabúðum í miðborginni fara ekki fram hjá neinum. Allt verður að fara úr þessari verslun Nordic Store við Laugaveg 41 fyrir yfirvofandi lokun.
Skilti sem boða brunaútsölur í minjagripabúðum í miðborginni fara ekki fram hjá neinum. Allt verður að fara úr þessari verslun Nordic Store við Laugaveg 41 fyrir yfirvofandi lokun. Vísir/þg

Vegna áhrifa kórónuveirunnar á ferðamannaflauminn til landsins hafa aðstandendur minjagripakeðjunnar Nordic Store ákveðið að loka meirihluta verslana sinna - tímabundið að eigin sögn. Gestir miðborgarinnar hafa ekki farið varhluta af yfirvofandi lokunum enda skilti sem boða tugprósenta afslátt í verslunum keðjunnar fyrirferðamikil, eins og myndin hér að ofan ber með sér.

Þar að auki segir Bjarni Jónsson, eigandi Nordic Store, í samtali við Morgunblaðið að offramboð sambærilegra verslana í miðborginni bæti ekki úr skák. Minjagripabúðum, eða „lundabúðunum“ svokölluðu, hafi fjölgað um 50 prósent á síðustu árum samhliða uppgangi í ferðaþjónustunni. Því hafi leiðrétting í þessum efnum að líkindum verið tímabær að hans mati, nú þegar hægst hefur á ferðamannastraumnum.

Nordic Store ætli þannig að loka fjórum af sex verslunum sínum, en keðjan rekur meðal annars útibú við Laugaveg 4 til 6, 18, 41 og 95 til 99. Bjarni segir að þau hjá Nordic Store hafi verið undir samdrátt búin, eiginfjárstaða félagsins sé góð og að með niðurskurði geti þau tórað lengi. Jafnframt séu vormánuðirnir „langlélegustu mánuðir ársins“ fyrir verslanir í miðborginni þannig að höggið er enn sem komið er ekkert gríðarlegt.

Dragist niðursveiflan á langinn gæti þó önnur staða skapast og segist Bjarni því ekki geta útilokað að einhverjum útibúum Nordic Store verði lokað til frambúðar, þó svo að honum þyki það ekki líkleg niðurstaða. Árið verði þó að líkindum „mjög lélegt“ fyrir sambærilega verslun í miðborginni enda stefni í „hörmulegt ár í íslenskri ferðaþjónustu.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×