Erlent

Í­búar í Kali­forníu haldi sig heima

Atli Ísleifsson skrifar
Fámennt var á Huntington Beach í Kaliforníu í gær.
Fámennt var á Huntington Beach í Kaliforníu í gær. Getty

Íbúar í Kalíforníu í Bandaríkjunum hafa fengið skipanir frá yfirvöldum um að halda sig heima næstu vikurnar, til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar sem nú geisar um heimsbyggðina.

Gavin Newsom ríkisstjóri sagði á blaðamannafundi í gærkvöldi að fólk ætti einungis að yfirgefa heimili sín ef brýna nauðsyn beri til. „Þetta er stund þar sem við verðum að taka erfiðar ákvarðanir. Við verðum að viðurkenna þann raunveruleika sem nú er uppi,“ sagði ríkisstjórinn í ávarpi til íbúa ríkisins.

Newsom sagði einnig að spár geri ráð fyrir því að um helmingur af 40 milljónum íbúa ríkisins smitist á næstu tveimur mánuðum. Íbúum sé þó heimilt að versla mat og lyf, ganga með hundinn, en að takmarka þyrfti samskipti eftir fremsta megni.

Nú hafa rúmlega 14 þúsund manns verið greindir með veiruna í Bandaríkjunum og 205 hafa látið lífið en óttast er að útbreiðslan sé mun meiri.

Nærri 250 þúsund manns hafa síðan greinst á heimsvísu og tala látinna er nú komin yfir 10 þúsund manns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×