Viðskipti innlent

Skúli ætlar að opna sjóböð í Hvammsvík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skúli Mogensen á Startup ráðstefnu í Hörpu
Skúli Mogensen á Startup ráðstefnu í Hörpu Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Athafnamaðurinn Skúli Mogensen stefnir á að snúa aftur í íslenska ferðaþjónustu með því að opna sjóböð í Hvammsvík í Hvalfirði.

Frá þessu er greint í ViðskiptaMogganum, fylgiriti Morgunblaðsins um viðskipti.

Þar kemur fram að Skúli hafi ásamt fjölskyldu sinni stofnað félagið Hvammsvík sjóböð. Verið sé að afla tilskilinna leyfa og markmiðið sé að hefja framkvæmdir á vormánuðum.

Er haft eftir Skúla að „vonandi í sumar“ geti Íslendingar farið í sjóböðin.

Í Viðskiptamogganum kemur fram að samkvæmt skipulagslýsingu verði hlaðnar baðlaugar á jörðinni, sem er í eigu fjölskyldu Skúla.

„Ég hef enn fulla trú á Íslandi sem áfangastað og ferðaþjónustu landsins,“ er haft eftir Skúla í Viðskiptamogganum, sem hefur látið lítið fyrir sér fara í íslensku viðskiptalífi eftir gjaldþrot WOW air á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×