Erlent

Frægt upp­töku­ver í Dan­mörku eyði­lagðist í bruna

Atli Ísleifsson skrifar
Elton John og Depeche Mode voru í hópi þeirra sem tóku upp plötur í Puk-upptökuverinu á Jótlandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Elton John og Depeche Mode voru í hópi þeirra sem tóku upp plötur í Puk-upptökuverinu á Jótlandi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty

Puk-upptökuverið fyrir utan Randers í Danmörku brann til kaldra kola í gær. Upptökuverið naut talsverðra vinsælda á sínum tíma þar sem alþjóðlegar stórstjörnur á borð við Elton John, Depeche Mode, George Michael, Gary Moore og Judas Priest tóku þar öll upp tónlist.

Verið opnaði árið 1978 í Gjerlev á Jótlandi, rétt norður af Randers.

Talsmaður slökkviliðs segir að byggingin hafi verið alelda þegar slökkvlið bar að garði. „Upptökuverið er mörg þúsund fermetrar og allt er farið, ef frá er talin lítil húslengja,“ segir Jørgen Hansen hjá slökkviliðinu í samtali við Ritzau.

Enginn slasaðist í eldsvoðanum, ekki liggja fyrir um orsök brunans. Verið var í eigu félags sem starfrækir vindmyllur og var mannlaust þegar eldurinn kom upp.

Auk alþjóðlegra tónlistarmanna leituðu fjölmargir danskir tónlistarmenn í Puk-upptökuverið.

DR birtir á heimasíðu sinni lista yfir plötur sem teknar voru upp í Puk-verinu.

  • Kim Larsen: Midt om Natten
  • George Michael: Faith
  • Depeche Mode: Music For The Masses, Violator ‎
  • Elton John: Sleeping With The Past
  • Judas Priest: Ram It Down
  • Nephew: USADSB
  • Volbeat: Outlaw Gentlemen & Shady Ladies
  • Kent: Hagnesta Hill




Fleiri fréttir

Sjá meira


×