Erlent

Reuters hefur eftir heimildarmanni að Brexit-samningur sé svo gott sem í höfn

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Að óbreyttu yfirgefur Bretland Evrópusambandið í svokölluðum „hörðum“ Brexit, þ.e.a.s. án samnings.
Að óbreyttu yfirgefur Bretland Evrópusambandið í svokölluðum „hörðum“ Brexit, þ.e.a.s. án samnings.

Samningar milli Evrópusambandsins og Bretlands nást mögulega á næstu klukkustundum, hefur Reuters eftir heimildarmanni hjá ESB. Ef rétt reynist hefur því þá verið forðað að svokallað aðlögunartímabil taki enda um áramót með ófyrirsjáanlegum efnahagslegum afleiðingum.

Reuters segist ekki hafa fengið það staðfest frá Bretum að samningur sé í höfn en allt frá því að þeir yfirgáfu Evrópusambandið formlega 31. janúar hafa viðræður staðið yfir um fríverslunarsamning til að tryggja hagsmuni íbúa beggja svæða.

Heimildarmaður Reuters sagði liggja fyrir að aðildarríki ESB þyrftu að samþykkja bráðabirgða gildistöku 1. janúar þar sem fullgilding næðist ekki í tæka tíð. Hann sagðist gera ráð fyrir að tilkynnt yrði um málalok í dag eða á morgun.

Síðast þegar bresk stjórnvöld tjáðu sig um stöðu mála var enn ósamið um fiskveiðar og samkeppnismál. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins neitaði að tjá sig um stöðuna þegar eftir því var leitað af Reuters.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×