Handbolti

„Maður spyr sig af hverju í fjandanum maður sé að þessu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórir Hergeirsson gerði Noreg að Evrópumeisturum í fjórða sinn um helgina.
Þórir Hergeirsson gerði Noreg að Evrópumeisturum í fjórða sinn um helgina. getty/Andre Weening

Þótt Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Noregs, sé venjulega yfirvegunin uppmáluð á hliðarlínunni segist hann finna fyrir stressi, eins og í úrslitaleik EM gegn Frakklandi á sunnudaginn.

Noregur vann úrslitaleikinn, 22-20, en úrslitin réðust ekki fyrr en undir blálokin þar sem norska liðið var sterkara á svellinu.

„Ég vil ekki segja að mér líði vel í svona aðstæðum,“ sagði Þórir í samtali við Vísi aðspurður hvernig tilfinningin að fylgjast með úrslitaleiknum gegn Frakklandi hafi verið.

„Fyrir þessa undan- og úrslitaleiki og eins fyrir opnunarleiki spyr maður sig af hverju í fjandanum maður sé að þessu. Mann hlakkar til en er um leið alveg að drepast úr óróa. En maður er kominn inn í leikinn er maður bara í honum. Maður er inni í eins konar búbblu og er bara í leiknum og tekur ekki eftir neinu sem gerist utan vallar.“

Norðmenn voru alltaf með frumkvæðið í úrslitaleiknum þótt Frakkar hafi sótt að þeim í seinni hálfleik.

„Ég var aldrei órólegur í úrslitaleiknum nema um miðjan seinni hálfleik. Við vorum byrjaðar að undirbúa okkur undir sjö á móti sex og gera það klárt. En þá tók Nora Mørk af skarið, skoraði tvö flott mörk meira og minna upp á eigin spýtur. Svo fengum við víti sem við skoruðum úr og þá róaðist þetta,“ sagði Þórir.

„Við spiluðum mjög sterkan varnarleik meira og minna allan leikinn og fengum topp markvörslu. Þegar þú ert með svona góða markvörslu eins og Silje Solberg var með þolirðu að vera með slakari nýtingu í sókninni.“

Klippa: Þórir um úrslitaleikinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×