Innlent

Sér fyrir endann á úr­komu en á­fram skriðu­hætta

Sylvía Hall skrifar
Neyðarstig almannavarna er í gildi á Seyðisfirði. 
Neyðarstig almannavarna er í gildi á Seyðisfirði.  Vísir/Egill

Skriðuhætta verður áfram á austanverðu landinu þó nú sjái fyrir endann á þeirri rigningu sem hefur verið á svæðinu. Neyðarstig almannavarna er í gildi á Seyðisfirði og hefur bærinn verið rýmdur vegna skriðuhættu eftir að stórar skriður féllu í bænum.

Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

Mikið tjón hefur orðið vegna skriðufallanna en sú síðasta féll um klukkan þrjú í gær og var hún gífurlega stór. Í það minnsta tíu hús hafa skemmst vegna skriðufalla og mikill viðbúnaður er á svæðinu.

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, benti á að 570mm hefði rignt á Seyðisfirði en árlega rignir um það bil 860mm á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Öll hús á Seyðisfirði voru rýmd í gær og var fólki gert að snúa ekki aftur til síns heima og var öllum íbúum komið yfir til Egilsstaða þar sem fundinn var gististaður. Fólk var flutt ýmist með rútum eða einkabílum en aðstæður eru erfiðar í bænum og þurftu einhverjir að komast sjóleiðina frá bænum.

Hér að neðan má sjá svipmyndir frá Seyðisfirði í gær eftir að skriðan féll síðdegis í gær.


Tengdar fréttir

Hol­ræsin hafa ekki undan og slökkvi­liðið reynir að bjarga kjöllurum frá vatns­skemmdum

Slökkviliðsmenn á Seyðisfirði hafa undanfarna daga átt fullt í fangi með að dæla vatni upp úr kjöllurum og að dæla vatn úr holræsum sem hafa ekki haft undan. Haraldur Geir Eðvaldsson, slökkviliðsstjóri á Seyðisfirði segir að enn sé mikið eftir og að starf slökkviliðsins muni ekki hefjast af alvöru fyrr en íbúar hafa snúið aftur heim til sín.

Um 30 ár síðan heilt bæjar­fé­lag var síðast rýmt

Neyðarástand er í gildi á Seyðisfirði vegna aurskriða sem þar hafa fallið síðustu sólarhringa. Stór skriða féll á byggðina um klukkan hálf fjögur í dag sem hreif með sér hús sem jafnaðist nánast við jörðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×