Innlent

Fjárlög næsta árs samþykkt á Alþingi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. Vísir/Vilhelm

Fjárlög 2021 voru samþykkt á Alþingi nú rétt eftir klukkan tíu með 33 atkvæðum en 28 greiddu ekki atkvæði. Fjárlögin markast af viðbrögðum stjórnvalda við áhrifum kreppunnar sem fylgir kórónuveirufaraldrinum.

Útgjöld verða aukin um 55 milljarða króna og gert er ráð fyrir um 320 milljóna króna halla á næsta ári. Umfangsmesta aðgerðin í breytingartillögum fjárlaganefndar Alþingis eru viðspyrnustyrkir til fyrirtækja sem nema um tuttugu milljörðum króna.

„Ég vil segja fyrir mitt leiti að mér finnst að samstarfið hafi þrátt fyrir þessar ótrúlega erfiðu og sérstöku aðstæður verið mjög gott og nefndin hér í þinginu unnið merkilegt starf við erfiðar aðstæður,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra í ræðustóli þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu.

„Ég hef trú á því að ríkisstjórnin sé með þessum fjárlögum að leggja grunn að viðspyrnu sem mun reynast okkur gríðarlega dýrmæt á komandi árum þegar við þurfum sem samfélag, sem hagkerfi á vexti að halda,“ sagði Bjarni.

Nokkrar breytingartillögur við fjármálafrumvarpið voru felldar, meðal annars tillaga Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, um fæðingarorlofsstyrki og lífeyri aldraðar. Þá var tillaga Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utan flokka, um 60 milljóna króna árlegt framlag til að koma á fót sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun felld.


Tengdar fréttir

Gera ráð fyrir 320 milljarða hallarekstri ríkissjóðs

Hallarekstur ríkissjóðs á næsta ári er áætlaður 10,4% af vergri landsframleiðslu að teknu tilliti til þeirra breytingatillagna sem meirihluti fjárlaganefndar Alþingis gerir grein fyrir í nefndaráliti við fjáraukalög sem dreift var á Alþingi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×