Sport

Jöfnuðu 98 ára gamalt NFL-met í 89 stiga leik í nótt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lamar Jackson skorar snertimark fyrir Baltimore Ravens á móti Cleveland Browns í nótt.
Lamar Jackson skorar snertimark fyrir Baltimore Ravens á móti Cleveland Browns í nótt. AP/David Richard

Það vantaði ekki stigin og dramatíkina þegar Baltimore Ravens hélt tímabilinu á lífi með 47-42 sigri á Cleveland Browns í NFL-deildinni í nótt.

Sóknarleikurinn var í hávegum hafður í þessum leik og þá sérstaklega hlaupaleikurinn. Liðin hlupu alls níu sinnum með boltann í mark mótherjanna sem er það mesta í NFL deildinni síðan 1922 eða í 98 ár.

Baltimore Ravens mátti helst ekki tapa leiknum ef liðið ætlaði sér að vera með í úrslitakeppninni en Cleveland Browns hefur nú bara einum sigri meira og verri innbyrðis stöðu. Ravens er nú 8-5 en Cleveland er 9-5.

Sparkarinn Justin Tucker tryggði í raun sigurinn með 55 jarda vallarmarki en síðustu tvö stigin komu eftir að Ravens felldi sóknarmann Browns í hans eigin marki.

Lamar Jackson, leikstjórnandi  Baltimore Ravens, var kominn inn í klefa í fjórða leikhluta kominn með krampa en snéri aftur eftir fimmtán stig Cleveland Browns liðsins í röð og leiddi sína menn til sigurs.

Jackson átti góðan leik, skoraði tvö snertimark sjálfur og kastaði síðan 44 jarda snertimarkssendingu á útherjann Marquise Brown. Lamar Jackson er farinn að spila á ný eftir að hafa fengið kórónuveiruna.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×