Innlent

Sam­dráttur í losun gróður­húsa­loft­tegunda gæti orðið allt að 45 prósent

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í sumar þar sem kynntar voru 48 aðgerðir nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í sumar þar sem kynntar voru 48 aðgerðir nýrrar aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að lágmarksframlag Íslands varðandi samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi fari að öllum líkindum úr 29 prósentum í 40 til 45 prósent innan þess sameiginlega markmiðs Noregs og ríkja Evrópusambandsins um að draga úr losun um 55 prósent til ársins 2030.

„Í núverandi stöðu þá er markmiðið sem er sameiginlegt með Íslandi, Evrópusambandinu og Noregi 40 prósenta samdráttur og þar af er Ísland með um 29 prósenta markmið. Við lýsum þessu yfir núna, að þetta markmið fari úr 40 prósentum í 55 prósent, og það þýðir auðvitað að hlutur Íslands eykst en það liggur ekki endanlega fyrir hvert endanlegt markmið fyrir Ísland verður en þetta endurspeglar að það fer töluvert upp okkar,“ segir Katrín í samtali við fréttastofu.

Katrín segir að íslensk stjórnvöld vilji gera betur í þessum málum og standa sig vel.

„Þannig að við sjáum fyrir okkur að þarna getum við farið hæglega yfir 40 prósenta markmiðið í samdrætti í losun. Það teljum við að sé hægt að gera meðal annars með þeim aðgerðum sem við kynntum núna í júní þar sem eru kynntar 48 aðgerðir sem við teljum í raun og veru að við munum ná fara umfram markmiðið sem gengumst undir í Parísarsáttmálanum en til þess að ná þessu markmiði um 55 prósentin þá munum við þurfa að gera enn betur og efla aðgerðir okkar enn frekar. Krafan á Ísland hefur verið um 29 prósent inn í 40 prósenta markmiðinu. Hún yrði einhvers staðar á bilinu 40 til 45 prósent ef evrópska heildarmarkmiðið yrði hækkað upp í 55 prósent,“ segir Katrín.

Eins og áður segir er nú gerð krafa um að minnsta kosti 29 prósenta samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi samkvæmt Parísarsamkomulaginu.

Um er að ræða losun sem fellur utan hins svokallað ETS-kerfis en losun innan ETS hvað Ísland varðar er einkum á sviði stóriðju og flugs. Þar bera fyrirtækin sjálf ábyrgð innan samevrópsks viðskiptakerfis.

„Önnur losun, s.s. frá samgöngum, sjávarútvegi, landbúnaði og meðferð úrgangs, er á beinni ábyrgð einstakra ríkja, sem taka á sig tölulega skuldbindingu varðandi þá losun,“ segir í tilkynningu á vef stjórnarráðsins í morgun.

Þannig hefur til dæmis lágmarksframlag Grikklands verið 16 prósent miðað við árið 2005, Noregs 40 prósent, Tékklands 14 prósent og Þýskalands 38 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×