Erlent

Tunglfarið á leið til jarðar með mánagrjót

Samúel Karl Ólason skrifar
Þessi mynd var tekin af yfirborði tunglsins með víðlinsu.
Þessi mynd var tekin af yfirborði tunglsins með víðlinsu. AP/Geimvísindastofnun Kína

Ríkismiðlar Kína segja að geimfarið Chang'e 5 sé nú á leið aftur til jarðarinnar eftir að hafa lent á tunglinu og tekið þaðan sýni. Geimfarið lenti á tunglinu fyrr í vikunni.

Nánar tiltekið lenti geimfarið skammt frá Mons Rümker í Stormhafinu og var það í þriðja sinn sem Kínverjar lenda geimfari á tunglinu.

Bergsýnin sem Chang'e 5 safnaði eiga að gefa vísindamönnum betri hugmynd um hvernig tunglið myndaðist og þróaðist, hversu lengi það var jarðfræðilega virkt og hvenær segulsvið þess fjaraði út.

Samkvæmt frétt Xinhua, sem er í eigu kínverska ríkisins, tók það um 19 klukkustundir að safna sýnunum og var þeim komið fyrir í sérstöku íláti á geimfarinu. Bæði boraði farið eftir sýnum og tók þau upp með skóflu.

Aðrir hlutar geimfarsins eru á braut um tunglið og eiga þeir að sameinast þar. Í kjölfarið verður stefnan svo sett á jörðina en óvíst er hvenær það verður. Ferðalagið aftur til jarðar er þó hafið.


Tengdar fréttir

Segja lendinguna á tunglinu hafa heppnast

Yfirvöld í Kína segja að lending kínversks geimfars á tunglinu hafi heppnast. Geimfarið, sem kallast Chang'e 5, á að safna mánasteinum og flytja þá aftur til jarðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×