Erlent

Brákaðist á fæti í leik með Major

Atli Ísleifsson skrifar
Joe Biden mun taka við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi.
Joe Biden mun taka við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi. Getty

Joe Biden, verðandi Bandaríkaforseti, brákaðist á fæti þegar hann var að leik með Major, öðrum af tveimur hundum sínum, á laugardaginn.

Læknir Biden greinir frá þessu og segir Biden hafa runnið til og snúið ökkla. Biden hafi svo til að gæta allrar varúðar heimsótt bæklunarlækni í Newark í Delaware.

Fyrstu röntgenmyndir hafi ekki sýnt nein augljós brot en að síðari sneiðmyndataka hafi sýnt fram á smávægilega sprungu í tveimur beinum í miðjum hægri færi.

„Búist er við að hann muni líklega þurfa að notast við spelku í nokkrar vikur,“ er haft eftir lækninum Kevin O'Connor.

Hinn 78 ára Biden verður elsti maðurinn til að taka við embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar næstkomandi. O‘Connor hefur annars sagt Biden við góða heilsu og vel í stakk búinn til að sinna starfsskyldum forseta.

Reiknað er með að Biden muni taka með sér hundana Champ og Major þegar hann flytur inn í Hvíta húsið. Þeir eru báðir þýskir fjárhundar.

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, hefur óskað Biden skjóts bata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×